Skráð atvinnuleysi í febrúar 2010 var 9,3% eða að meðaltali 15.026 manns og eykst atvinnuleysi um 2,2% að meðaltali frá janúar eða um 321 manns. Á sama tíma á árinu 2009 var atvinnuleysi 8,2% eða 13.276 að meðaltali.
Tæp 10% íbúa höfuðborgarsvæðisins án atvinnu
Atvinnuleysið er 9,9% á höfuðborgarsvæðinu en 8,2% á landsbyggðinni.
Mest er það á Suðurnesjum 15% en minnst á Vestfjörðum
3,6%. Atvinnuleysið er 10,2% meðal karla og 8,1% meðal kvenna, að því er segir á vef Vinnumálastofnunar.
Alls
voru 16.574 atvinnulausir í lok febrúar. Þeir sem voru atvinnulausir
að fullu voru hins vegar 13.528, af þeim voru 2.196 í einhvers konar
úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, auk þess sem mikill fjöldi fer í
ráðgjafarviðtöl og á kynningarfundi.
Fjölgun atvinnulausra í lok febrúar mánaðar frá lokum janúar nam 192, en 187 fleiri karlar voru á skrá og 5 fleiri konur. Á landsbyggðinni fækkaði um 37 en fjölgaði um 229 á höfuðborgarsvæðinu.
Útlit fyrir litlar breytingar í mars
Oft er lítil
breyting á atvinnuástandi frá febrúar til mars. Í fyrra var
undantekning þar á en þá var enn talsverð aukning á atvinnuleysi eftir
efnahagshrunið haustið 2008. Þannig jókst atvinnuleysi um 9,6% frá
febrúar til mars á árinu 2009.
Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í mars breytist lítið og verði
á bilinu 9,1%-9,5%. Í fyrra var atvinnuleysið 8,9% í mars.
Flestir útlendingar atvinnulausir í byggingaiðnaði
Alls voru 2.393 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok febrúar, þar af 1.357 Pólverjar eða um 57% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok febrúar. Langflestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru í byggingariðnaði eða 782.