Bankinn beðinn að leiðrétta misskilning

Eignarhaldsfélagið Samson greiddi í apríl árið 2005 að fullu lán sem tekið var hjá Búnaðarbankanum í apríl árið 2003 fyrir annarri af þremur greiðslum á 45,8% eignarhlut í Landsbanka Íslands. Morgunblaðið hefur undir höndum kvittanir sem staðfesta greiðsluna. Fullyrt var á síðasta ári að lánið væri enn ógreitt og í vanskilum.

Ásgeir Friðgeirsson, ráðgjafi Björgólfs Thors Björgólfssonar, segir að svo langan tíma hafi tekið að leiðrétta þann misskilning þar sem Samson er þrotabú og fyrrverandi eigendur höfðu ekki aðgang að gögnum. Þá hafi verið gerð munnleg athugasemd við frétt Fréttablaðsins um málið í apríl á síðasta ári en ekki hafi verið tekið mark á henni og að staðið væri við fréttina.

Jafnframt hafi verið óskað eftir því við Arion banka, að staðfest væri að lán Samsonar vegna kaupa á hlutnum í Landsbankanum hafi verið að fullu greitt, en bankinn neitað að svara, þar sem óskin þyrfti að koma frá bústjóra Samsonar.

„Bústjóri sendi fyrir okkar hönd bréf til bankans en því hafði ekki verið svarað þegar gögnin fundust hjá endurskoðanda,“ segir Ásgeir og bætir við að kvittanirnar hafi borist nú fyrir helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert