„Samkeppnisfær sjávarútvegur er það sem við þurfum. Við spólum ekki þeirri þróun til baka sem átt hefur sér stað. Við verðum að horfast í augu við að afköst á manntíma í vinnslunni hafa stóraukist og á sama tíma hefur afli minnkað. Greinin þarf færra fólk en áður til að vinna úr þeim fiski sem við veiðum. Skipum hefur fækkað. Stjórnmálamenn verða að hætta að slá ryki í augu fólks með því að halda því fram að allt geti orðið eins og áður.“
Þetta kom m.a. fram í ræðu Gunnþórs Ingvasonar, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar hf. á Neskaupstað, sem hann flutti á fjölmennum fundi á Eskifirði fyrir stuttu og greint er frá á vef LÍÚ.
Í ræðu sinni stiklaði Gunnþór á stóru í sögu kvótakerfisins og gat þess, að sá árangur sem náðst hefði fyrir tilstilli kerfisins hefði ekki verið án fórna. „Ljóst var að takmörkun veiðanna og samdráttur í heimildum myndi leiða til fækkunar fiskiskipa, enda var staðan í greininni erfið.“
Gunnþór kom einnig inn á hver þróunin hefði orðið fyrir austan. „Við Austfirðingar höfum ekki farið varhluta af þeirri þróun sem fylgdi i kjölfarið. Útgerðaraðilum hefur fækkað, við erum ekki með marga einyrkja í útgerð. Þeir hafa runnið inn í önnur félög og aðilar hafa selt frá sér heimildir.
Dregið hefur úr bolfiskvinnslu, togurum hefur fækkað um helming á sl. 10 árum eða úr tíu í fimm. Afli á úthaldsdag togaranna hefur aukist og hagvæmni veiðanna aukist að sama skapi,“ sagði Gunnþór og bætti við: „Aðlögunarhæfni sjávarútvegsins er fyrst og fremst tilkomin vegna þess öfluga fiskveiðistjórnunarkerfis sem við búum við.“