Fréttaskýring: Friðlýsing Gjástykkis vopn gegn álveri?

Svört hraunbreiðan í Gjástykki, mest af hrauninu rann í gosum …
Svört hraunbreiðan í Gjástykki, mest af hrauninu rann í gosum á áttunda áratugnum og elfan fyllti víða gamlar sprungur og gjótur. Birkir Fanndal Haraldsson

Talsmenn Norðurþings eru ósáttir við að umhverfisráðherra skuli ætla að friðlýsa allt Gjástykki en ætlunin var að bora í tilraunaskyni á um 2% hraunbreiðunnar til að rannsaka jarðvarmann.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra og liðsmaður VG, hefur nú ákveðið að Gjástykki, yngsti hlutinn af eldstöðvakerfi Kröflu, verði friðlýst svæði. Ljóst er að þá verða ekki stundaðar tilraunaboranir til að kanna svæðið betur. Jarðvarminn á svæðinu verður því ekki nýttur til orkuframleiðslu, t.d. handa hugsanlegu álveri á Bakka við Húsavík.

Talið er að um 40-50 megavatta orka gæti verið í Gjástykki eða um 10% af því sem þarf til að reka 250 þúsund tonna álver. Vonast er til að afganginn megi fá úr Kröflu, Bjarnarflagi, Þeistareykjum og víðar. Ákvörðun ráðherra er hart gagnrýnd af ráðamönnum Norðurþings.

„Mér finnst eðlilegra að fyrst sé kannaður hugur heimamanna og landeigenda til þess að friðlýsa,“ segir Gunnlaugur Stefánsson, formaður sveitarstjórnarinnar. „Það verður mjög þungt fyrir ríkið að friðlýsa þetta svæði í andstöðu við heimamenn.

Við erum nýbúin að samþykkja svæðaskipulag háhitasvæðanna þar sem tekið er á verndun þessa svæðis. Öll sveitarfélögin hér á svæðinu eru sammála um að friða alveg 98% af Gjástykki en rannsaka aðeins 2% til að kanna hvort það sé þess virði að virkja þar. Ég skil ekki hvers vegna verið er að rjúka núna fram með þessum hætti.“ Fólki fækki stöðugt í Norðurþingi og stóriðja gæti verið liður í að stöðva þá þróun.

Reynt að stöðva álverið?

Fáir efast um að sjónarmið VG varðandi álver og nýtingu Gjástykkis séu í minnihluta í héraðinu. Eini fulltrúi VG í stjórn Norðurþings, Aðalsteinn Örn Snæþórsson, segir þó aðspurður að eining ríki um stefnu ráðherra meðal flokksmanna á svæðinu. Afla verði orku á öðrum svæðum í héraðinu og hann er andvígur álveri. Gjástykki sé hrífandi svæði sem hafi verið vannýtt í ferðaþjónustu og jafnvel þótt aðeins verði mannvirki á litlum hluta þess sé búið að skemma það um of.

Pétur Snæbjörnsson, hótelstjóri í Reynihlíð við Mývatn, sér hins vegar ekkert að því að rannsaka svæðið betur með tilraunaborunum, raskið vegna þeirra verði sáralítið. Hann minnir á að vegna virkjunar í Kröflu hafi verið lagður þar vegur og svæðið opnast ferðamönnum. Sama yrði upp á teningnum í Gjástykki.

„Mér finnst að það sé verið að gefa öllu þekkingarsamfélaginu svolítið kjaftshögg með þessari ákvörðun, verið að segja: við ætlum ekkert að skoða þetta, bara loka. Sem stendur nýtist Gjástykki ferðaþjónustunni ekki neitt. Leggja þarf góðan veg inn á svæðið og koma þar upp bílastæðum. Þetta er svo úfið hraun og erfitt að ferðast um það, þarna er engum fært nema fuglinum fljúgandi á sumrin,“ segir Pétur.

Frá Gjástykki.
Frá Gjástykki.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert