Iðnaðarráðherra vill sjá hugarfarsbreytingu

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, sagði á ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í morgun að leggja þurfi á það áherslu að hugarfarsbreyting verði hjá fjármálastofnunum og fjárfestum þannig að menn þori að hugsa til langs tíma, temji sér þolinmæði og biðlund eftir hárri ávöxtun, og trúi á það að rannsóknir og þróun, skýr stefnumótun og einbeiting skili árangri með tímanum.

Sagði hún að á meðan risið hafi verið sem mest í uppsveiflunni á Íslandi þá hafi bankarnir ekki litið við að fjármagna Össur eða Marel vegna þess að á þeim bæjum var hugsað til lengri tíma en svokallaðir eigendur óþolinmóða fjármagnsins íslenska gátu sætt sig við.

Katrín sagði að það vantaði vilja og traust til þess að hætta fé í sprota og nýsköpun enda þótt sum af okkar bestu nýsköpunarfyrirtækjum, eins og CCP, hafi skilað fjárfestum 30 faldri ávöxtun á því fjármagni sem lagt hefur verið í þau. 

„Við hljótum að leggja áherslu á að hér verði hugarfarsbreyting hjá fjármálastofnunum og fjárfestum þannig að menn þori að hugsa til langs tíma, temji sér þolinmæði og biðlund eftir hárri ávöxtun, og trúi á það að rannsóknir og þróun, skýr stefnumótun og einbeiting skili árangri með tímanum.

Íslensk fyrirtæki verja 19 milljörðum í rannsóknir og þróun. Ekki ber að vanþakka það því að nýsköpun í starfandi fyrirtækjum er ekki síður mikilvæg en frumkvöðlastarfsemi. En það er hins vegar áhyggjuefni að einungis 5 fyrirtæki:  Actavis, CCP, deCode, Marel og Össur, standa fyrir 60% af öllum þeim fjármunum sem varið er til rannsóknar og þróunar í fyrirtækjum. Það bendir til þess að of lítil áhersla sé lögð á þennan þátt í fyrirtækjarekstri á Íslandi enda eru flest fyrirtæki smá. Þarna þarf að leita leiða til þess að auka  rannsóknir og þróun," sagði Katrín við setningu ársfundar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert