„Við erum vægast sagt mjög óhressir,“ segir Ottó Garðar Eiríksson, formaður Félags íslenskra flugumferðastjóra. Flugumferðastjórar aflýstu nú í kvöld verkfalli sem boðað hafði verið til í fyrramálið og á mánudag þegar lagasetning á verkfallið vofði yfir. „Það er með ólíkindum að svona inngrip skuli koma til hjá yfirvöldum. Það leysir engan vanda að setja lög á okkur.“
Sagði hann flugumferðastjóra nú verða að treysta því að það þokist í samningsátt á næstu dögum. „Annars koma lögin bara inn á næsta verkfall.“ Flugumferðastjórar ætli ekki að svo stöddu ekki að grípa til neinna annarra aðgerða en deilan haldi áfram.
Lítið hafði þokast í samningsátt í kjaradeilu flugumferðastjóra og ríkisins hjá sáttasemjara er fundi var slitið um kl. 17 síðdegis. „Þeir höfðu gert lítið til að koma til móts við okkur,“ segir Ottó.
Trúnaðarráð flugumferðastjóra mun hittast í kvöld, en ekki er búið að boða til nýs fundar hjá ríkissáttasemjara. Í tilkynningu frá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra segir, að verkföllunum hafi verið aflýst í ljósi fyrirheits ríkisstjórnarinnar um að viðræður um nýjan kjarasamning flugumferðarstjóra verði teknar upp að nýju þegar í stað og að samningaborðinu komi þá menn sem hafi óskorað samningsumboð ríkisstjórnarinnar.
Loftur Jóhannsson, formaður samninganefndar flugumferðarstjóra, lýsti í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld miklum vonbrigðum með ríkisstjórnina, sem hann sagðist hafa bundið miklar vonir við sem stjórn hinna vinnandi stétta. Sagði hann ríkisstjórnina hafa látið undan hvatningu stjórnarandstöðuþingmanns um að fremja mannréttindabrot og vísaði þá til þess, að Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, lýsti þeirri skoðun í samtali við mbl.is í gærkvöldi, að setja ætti lög á deiluna.
Sáttafundi í kjaradeilu flugumferðarstjóra var slitið í dag og nýr fundur ekki boðaður. Í kjölfarið kom ríkisstjórnin saman á fundi klukkan 18 og afgreiddi lagafrumvarp um að binda enda á verkfall flugumferðarstjóra. Þingflokkar stjórnarflokkanna komu saman í kjölfarið og hafði þingfundur verið boðaður klukkan 19:30 til að fjalla um frumvarpið. Þeim fundi var aflýst eftir að flugumferðarstjórar aflýstu verkföllunum.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði við Kastljósið að stjórnvöld hefðu ekki talið annað forsvaranlegt en að grípa inn í deiluna í ljósi þess að þarna ætti í hlut fámenn starfsstétt sem væri í lykilstöðu í samfélaginu og verkfall hennar myndi valda miklu tjóni hjá aðilum sem ekki eiga aðild að vinnudeilunni, þar á meðal flugfélögum.
Bæði Illugi Gunnarsson og Gunnar Bragi Sveinsson,, þingflokksformenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sögðu í Kastljósinu að þeir hefðu stutt lagafrumvarpið sem ríkisstjórnin ætlaði að leggja fram til að stöðva verkfallið.