Opinbert mál á hendur níu einstaklingum, sem m.a. eru ákærðir fyrir brot gegn Alþingi og valdstjórninni með því að hafa þann 8. desember 2008 ruðst inn í Alþingishúsið, var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
„Mér finnst afar hátt reitt til höggs og ekkert tilefni til slíkrar ákæru,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, verjandi eins hinna ákærðu. „Eftir að hafa fylgst með Alþingi úr fjarlægð í sextíu ár eða svo tel ég að almenningur hafi og eigi að hafa greiðan aðgang að þinginu.“
Settur saksóknari tekinn við
Ákæra á hendur mómælendunum var afturkölluð í janúar þegar í ljós kom að meðal brotaþola er þingvörður sem er hálfsystir eiginkonu Valtýs Sigurðssonar, ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari sagðist telja sig vanhæfan til frekari meðferðar málsins. Dómsmálaráðherra skipaði Láru V. Júlíusdóttur ríkissaksóknara í málinu.
Allir sakborningar eru ákærðir fyrir brot gegn Alþingi, brot gegn valdstjórninni, almannafriði og allsherjarreglu, og húsbrot með því að hafa, þann 8. desember 2008, ásamt hópi óþekktra manna, í heimildarleysi ruðst inn í Alþingishúsið við Austurvöll meðan á þingfundi stóð.
Slösuðu þingverði og lögreglumann
Fram hefur komið að þó nokkrir slösuðust í látunum í Alþingishúsinu. Einn hlaut tognun í hálsi, hálshrygg,
brjóst- og lendhrygg og mar á brjóstkassa. Sá hefur enn ekki náð fullri
heilsu. Annar hlaut
tognun á öxl, þriðji tognun í hnakka og lögreglumaður hlaut áverka á
þumli og hné og er varanleg læknisfræðileg örorka hans metin 8%.
Refsing við broti gegn Alþingi er fangelsi ekki skemur en eitt ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.