Nýr tónn hjá Gahr Støre

Jonas Gahr Støre.
Jonas Gahr Støre. mbl.is/Brynjar Gauti

Norska blaðið Aftenposten segir, að í viðtali við blaðið í gærkvöldi hafi kveðið við nýjan tón hjá Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, í afstöðunni til lánamála Íslands. Hafi hann opnað fyrir þann möguleika, að Ísland fái greidd út lán þótt annarri endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands sé ekki lokið.

„Það tengist að okkar mati ekki Icesave-samningunum svo framarlega sem skilyrðin sem sett eru í efnahagsáætluninni eru uppfyllt. Íslenska ríkisstjórnin hefur lýst því skýrt yfir, að það hafi verið gert og því teljum við að við ættum að vera opnir fyrir því að ræða þessa áætlun innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins," segir Gahr Støre.

Blaðið hefur jafnframt eftir honum, að Norðurlöndin eigi ekki með neinum hætti að koma í veg fyrir að málefni Íslands verði rædd innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  „Þetta er norsk afstaða og svo fáum við að heyra hvaða skoðanir hin Norðurlöndin hafa."

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna koma saman í Kaupmannahöfn í dag og segi Aftenposten að þar verði fjallað um málefni Íslands. Stjórnvöld á öðrum Norðurlöndum hafa lýst því yfir síðustu daga, að þau telji að Íslendingar verði að leysa Iceave-málið fyrst áður en hægt verði að greiða út frekari lán.  

Støre segist ekki hafa heyrt, að Bretar og Hollendingar reyni að koma í veg fyrir lánafyrirgreiðslu til Íslands vegna Icesave-málsins. Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, lýsti því yfir á sunnudag að hann teldi að Icesave ætti ekki að hafa áhrif á endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands hjá sjóðnum.   

Aftenposten segist vita, að rætt hafi verið um að Norðmenn veiti Íslandi sérstakt lán, hugsanlega í samvinnu við Evrópusambandið. „Ísland hefur óskað eftir breiðum alþjóðlegum lánapakka. Það er ekki hægt að útiloka að rætt verði um aðrar útgáfur á honum," segir ráðherrann. 

Gahr Støre lýsti því yfir í norska Stórþinginu á mánudag, að Norðmenn hefðu ekki staðið í vegi fyrir því að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tæki efnahagsáætlun Íslands til endurskoðunar.

„Íslensku ríkisstjórninni er ljóst, að það eru ekki Norðmenn, sem hafa stöðva endurskoðun efnahagsáætlunarinnar hjá sjóðnum," sagði  Støre á fundi Evrópunefndar þingsins.

Aftenposten segist þó hafa upplýsingar um, að Norðmenn hafi ekki mótmælt því á vettvangi Norðurlandanna, Evrópusambandsins eða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að endurskoðun á íslensku efnahagsáætluninni hafi tafist.  

Frétt Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert