Segir orð Støre sem tónlist

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði við Reuters í dag að ummæli  Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs hafi hljómað sem tónlist í sín eyru, þar sem hann hafi gert það alveg skýrt að lánafyrirgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ætti að vera óháð Icesave. En eins og fram hefur komið telur Støre að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eigi að taka á málefnum Íslands óháð Icesave málinu.

Sænski utanríkisráðherrann Carl Bildt, sagði eftir fund utanríkisráðherra Norðurlandanna í dag að það væri enginn ágreiningur á milli Norðurlandanna vegna Icesave og hann varaði við því að reynt væri að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn of fljótt af stað aftur.  „Ég tel ekki ráðlegt að taka málefni Íslands upp á hjá AGS ef stjórn sjóðsins segir nei,“ hefur Reuters eftir Bildt.  

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur þegar lýst því yfir að aðstoð hans sé ekki háð því  hvernig Icesave málinu lýkur. Norðurlöndin, utan Noreg hafa hins vegar hafnað áframhaldandi lánveitingum þar til Icesave deilan er leyst.

Össur sagðist í  dag vongóður um hægt væri að hefja viðræður um Icesave á ný við Hollendinga og Breta í næstu viku.  Hann sagði í samtali við fréttastofu Reuters  að fulltrúar landanna hefðu gefið í skyn að þeir væru tilbúnir til viðræðna þó enn væri eftir að staðfesta fundartíma.

Þá sagðist Össur telja að eftir viðræður síðustu þriggja vikna væri líklega að myndast vísir að nýjum samningi um Icesave.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert