Tilboð í Búðarhálsvirkjun - upphafsverk 2010 voru opnuð í dag. Sjö tilboð bárust í verkið, þar af öll nema eitt, undir kostnaðaráætlun. Árni Helgason ehf og verktakafélagið Glaumur ehf. áttu lægsta boðið eða rúmar 495,4 milljónir króna en kostnaðaráætlun hljóðar upp á tæpar 807 milljónir króna.
Eftirfarandi tilboð bárust og voru lesin upp:
Árni Helgason ehf og verktakafélagið Glaumur ehf. 495.417.651,-
Háfell ehf 999.133.989,-
Þjótandi ehf 619.564.510,-
Ræktunarsamband Flóa og Skeiða 784.904.121,-
Íslenskir aðalverktakar 634.428.678,-
Ístak 606.645.454,-
Suðurverk 732.872.560,-
Ráðgert er að framkvæmdum skuli lokið eigi síðar en í desember á þessu ári. Um er að ræða vinnu við gröft jarðganga, skurða og vatnsþróar og tilheyrandi styrkingu með sprautusteypu.
„Við teljum rétt við núverandi aðstæður að skipta verkinu upp í tvo hluta; undirbúningshluta, sem er mikilvægt að vinna að sumarlagi, og hins vegar aðalverkefnið, sem verður hugsanlega boðið út á miðju ári þegar heildarverkið verður boðið út,“ sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, þegar hann kynnti útboðið fyrir blaðamönnum í síðasta mánuði.
Tók hann fram að með þessu móti væri reynt að tryggja að verkið gæti verið á áætlun. Tók hann fram að væri þetta skref ekki tekið núna þá þyrfti að fresta framkvæmdum um ár.
Að sögn Harðar mun Landsvirkjun fjármagna undirbúningsframkvæmdirnar, en eftir er að fjármagna heildarverkið. Sagði hann menn bjartsýna á að samningar um bæði orkusölu og fjármögnun næðust á næstu mánuðum, en það væri háð ýmsum atriðum, þannig væri fjármögnun að utan t.d. háð lausn Icesave-deilunnar.
Tók hann fram að næðust samningar um orkusölu og fjármögnun Búðarhálsvirkjunar fljótlega væri hægt að bjóða út alla virkjunina síðar á þessu ári, en ráðgert er að hún verði gangsett 2013. Aðspurður um hugsanlega kaupendur orkunnar sagði Hörður Landsvirkjun í viðræðum við Alcan um kaup á orkunni til stækkaðs álvers í Straumsvík en hins vegar væru margir aðrir áhugasamir um kaup á henni.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun samþykkti Skipulagsstofnun Búðarhálsvirkjun í maí 2001 eftir mat á umhverfisáhrifum. Í framhaldinu fékk Landsvirkjun virkjunarleyfi, framkvæmdaleyfi og önnur tilskilin leyfi. Grafið var fyrir grunni stöðvarhúss og vegur lagður um Búðarháls með brú yfir Tungnaá. Framkvæmdum var síðan slegið á frest árið 2002. Búðarhálsvirkjun er á staðfestu aðalskipulagi Ásahrepps og Rangárþings ytra.