Stálu 2 milljónum úr spilakössum

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun tvö karlmenn um tvítugt í 12 mánaða og átta mánaða fangelsi fyrir fjölda brota. Þeir voru einnig sviptir ökuleyfi ævilangt. Mennirnir brutust m.a. inn, spenntu upp spilakassa og stálu úr þeim um tveimur milljónum króna.

Mennirnir voru ákærðir sameiginlega fyrir að brjótast inn í Háspennu við Aðalstræti í Reykjavík í febrúar fyrir ári og stela þaðan 664 þúsund krónum í reiðufé með að spenna upp spilakassa. Einnig fyrir að brjótast inn í verslun við Lóuhóla í Reykjavík í sama mánuði og spenna þar upp spilakassa en þaðan höfðu þeir á brott með sér um 1,5 milljónir króna.

Sá sem lengri dóminn hlaut var m.a. sakfelldur fyrir að brjótast inn í Öskjuhlíðarskóla með því að brjóta rúðu með felgulykli og stela þaðan tölvu og tölvuskjá. Tölvubúnaðurinn var metinn á 350 þúsund krónur. 

Þá ók hann um götur höfuðborgarinnar undir áhrifum amfetamíns og án ökuréttinda. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu þegar hún vildi hafa af honum afskipti en ók á allt að 100 km hraða á klukkustund í hverfi þar sem hámarkshraði er 30 km/klst. Maðurinn náðist svo á hlaupum.

Hann var reyndar sakfelldur fyrir sex umferðarlagabrot til viðbótar, var hann ýmist undir áhrifum vímuefna eða ekki, en ávallt sviptur ökuréttindum.

Einnig var hann sakfelldur fyrir hylmingu og fíkniefnabrot. Í eitt skiptið var hann með í vörslum sínum 71 gramm af hassi tæp tvö grömm af amfetamíni og tæpt gramm af kókaíni.

Maðurinn sem er aðeins 22 ára á að baki nokkurn sakarferil. Alloft hefur hann verið dæmdur fyrir fíkniefnabrot, innbrot, nytjastuld og fjársvik. Við mat á refsingu var litið til þess að hann játaði brot sín greiðlega.

Annar ökuníðingur stal kaffikönnu og hlaupaskóm

Hinn maðurinn sem er árinu yngri var sakfelldur fyrir fjögur umferðarlagabrot. Hann var einnig sviptur ökuréttindum en lét það ekki stöðva sig. Í eitt skipti var hann undir áhrifum vímuefna  og slævandi lyfja. Ók hann þá gegn rauðu umferðarljósi við gatnamót Hverfisgötu og Barónsstígs og yfir Laugaveg of hratt miðað við aðstæður og án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu. Tókst að stöðva akstur mannsins við Njálsgötu.

Í annað skipti var hann svo undir áhrifum amfetamíns og áfengis við aksturinn.

Hann var einnig tekinn með tugi gramma af hassi og önnur vímuefni auk þess sem hann braust inn í tvö íbúðarhús í Hafnarfirði og hafði með sér fjölda muna, s.s. tvær fartölvur, kaffikönnu, leikjatölvur, tvær myndavélar, veiðistöng, fatnað, sólgleraugu, snyrtivörur, hlaupaskó, kúbanska vindla og skartgripi. Tók hann einnig bifreið húsráðanda í annað skiptið og ók henni um höfuðborgarsvæðið þar til lögregla stöðvaði akstur hans.

Þrátt fyrir brot mannsins taldi héraðsdómur réttast að binda fimm mánuði af átta mánaða fangelsisdómi hans skilorði. Maðurinn á að baki nokkurn sakarferil og hefur áður gerst sekur um innbrot og þjófnaði, auk fíkniefnabrota og annarra umferðarlagabrota. Leit dómurinn til gagna sem maðurinn lagði fram, sem staðfesta vilja hans til að snúa lífi sínu til betri vegar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert