Talsmenn Fiskmarkaðs Íslands, Fiskmarkaðs Suðurnesja og Reiknistofu fiskmarkaða skora á Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra að auka aflaheimildir í þorski, ýsu, ufsa,karfa, keilu og löngu. Þeir telja að aflabrögð og útreikningar Hafró sýni að engin hætta sé tekin þótt aflaheimildir verði auknar verulega.
Yfirlýsing fiskmarkaðanna og reiknistofunnar birtast á heimasíðu þeirrar síðarnefndu. Þar segir m.a.:
„Með stórfelldum niðurskurði á aflaheimildum s.l. haust er vegið að grundvallar starfssemi fiskmarkaða í landinu. Afleiðingar þessa mikla niðurskurðar eru tvennskonar hvað varðar framboð á fiskmörkuðum.
Margar útgerðir eru nú í byrjun marsmánaðar að stöðvast og einnig hefur niðurskurðurinn þær afleiðingar að nánast ekkert framboð er á leigumarkaði með aflaheimildir.
Fjöldi fiskvinnslufyrirtækja sem byggja vinnslu á hráefnisöflun með kaupum á íslenskum fiskmörkuðum eru nú í mjög alvarlegri stöðu og sjá í raun ekki fram á annað en fjöldauppsagnir fiskvinnslufólks. Slíkt mun hafa alvarlegar afleiðingar á mörkuðum okkar erlendis með íslenskar sjávarafurðir.
Niðurskurður aflaheimilda og algjört frost á leigumarkaði hefur hvað mest áhrif á þær útgerðir sem staðið hafa undir stöðugu framboði á íslenskum fiskmörkuðum.“