Borg vísar gagnrýni Össurar á bug

Anders Borg.
Anders Borg. Reuters

„Anders Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, vísar á bug gagnrýni Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, á ummæli Borgs um að það gangi ekki að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslum gegn skuldbindingum sínum. 

Borg lét ummælin um þjóðaratkvæðagreiðsluna falla á blaðamannafundi í vikunni. „Það sem Anders Borg segir er gróf afbökun á því sem þjóðaratkvæðagreiðslan snérist um. Ég hef áhyggjur af því að þetta virtur stjórnmálamaður skuli breiða út jafn mikinn misskilning,“ segir Össur í viðtali sem á vef Svenska Dagbladet í gær.

Borg segir við fréttastofuna TT í dag, að önnur Norðurlönd séu sjónarmiðum sínum sammála. „Við höfum sameiginlega afstöðu til málsins á Norðurlöndunum sem kom meðal annars fram á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í gær," segir hann.  „Við viljum veita Íslandi aðstoð svo framarlega sem Íslendingar standa við efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og skuldbindingar, sem þeir hafa sjálfir undirgengist."  

Þegar TT spurði Borg hvort hann teldi, að Íslendingar séu að reyna að komast hjá því að standa við skuldbindingar sínar svarar hann að það sé ekki rétt túlkun á orðum hans. 

„Íslenska ríkisstjórnin lýsti því yfir, að það hefði verið gerður samningur við Holland og Breta. Nú halda samningaviðræður áfram og það er ekki mitt hlutverk að skipta mér af þeim," segir Borg. 

Frétt TT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert