„Ekki má gera ein mistök að stórtjóni"

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson. Bragi —r J—sefsson

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að ekki megi gera ein mistök að stórtjóni og segir að enn sé hægt að grípa til aðgerða til bjargar heimilum landsins þegar hann er spurður út í frétt Morgunblaðsins um að lán til viðskiptavina voru færð á meira en helmingsafslætti yfir í nýju bankana í október 2008. Eitt af stefnumálum Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar var að skuldir heimilanna yrðu færðar niður um 20%.

Væntanlega þurfi að grípa til enn róttækari aðgerða en áður var talið

„Þetta staðfestir orð okkar og sýnir að við höfum frekar verið of varfærin í orðum okkar heldur en hitt. Það að nýju bankarnir hafi afskrifað um 50% er í sjálfu sér stórtíðindi en sýna um leið að það er enn borð fyrir báru til þess að koma á móts við skuldavanda heimilanna," segir Höskuldur.

Hann segir að því miður virðist sem það þurfi að grípa til enn róttækari aðgerða en Framsóknarflokkurinn taldi í upphafi. „Menn hefðu betur hlustað á okkur. Svo vil ég segja eitt að þó svo einstakir þingmenn úr öðrum flokkum taki undir með okkur þá því miður dugar það ekki þegar flokkurinn í heild sinni tekur ekki þá afstöðu eins og með Sjálfstæðisflokkinn," segir Höskuldur en fyrr í dag sagði Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að fréttin sýni að  það er fullt svigrúm til að taka miklu meira á skuldavanda heimilanna en menn hafa viljað vera láta.

Óttast fjöldagjaldþrot íslenskra heimila

Höskuldur segir að Framsóknarflokkurinn þurfi fleiri í lið með sér í þessari baráttu. Sjálfstæðisflokkurinn taki ekki undir þetta í heild sinni og segir Höskuldur að þó hann telji að hafi verið gerð mistök hjá ríkisstjórninni að ráðast ekki í þetta strax þá telji hann að það sé enn hægt að grípa til aðgerða í þessa veru. Hann útilokar ekki að aðgerðirnar verði að vera róttækari en áður var talið. „Menn verða stundum að horfast í augu við mistök sín og snúa til baka. Það er enn tími til þess, en ef menn ætla áfram að berja höfðinu í steininn þá stöndum við frammi fyrir því að stór hluti íslenskra heimila endi í gjaldþroti," segir Höskuldur og varar við því að hluti millistéttarinnar á Íslandi glatist.

Forsíðufrétt Þórðar Gunnarssonar í Morgunblaðinu í dag:

Lán til viðskiptavina voru færð á meira en helmingsafslætti yfir í nýju bankana í október 2008. Þetta kemur fram í uppgjörum NBI (Landsbankans), Íslandsbanka og Arion-banka fyrir síðustu mánuði ársins 2008.

Mest er afskriftin hjá Arion-banka, en í uppgjörinu kemur fram að bókfært virði útlána og krafna á viðskiptavini bankans hafi verið ríflega 1.230 milljarðar króna þegar lánin voru færð frá Kaupþingi til nýja bankans. Lánin eru hins vegar færð til bókar á 384 milljarða króna. Einnig kemur þar fram að lán til einstaklinga hafi numið um 11% af heildarlánum til viðskiptavina, eða um 37 milljörðum króna, miðað við virði þeirra á bókum bankans í lok árs 2008. Um 75% þeirra lána eru sögð vera í skilum.

Minni afskrift hjá NBI og Íslandsbanka

Í tilfelli NBI voru lán til viðskiptavina ríflega 1.241 milljarður króna þegar skilanefnd tók yfir bankann 9. október. Lánin eru hins vegar færð til bókar á um það bil hálfvirði. Hlutfall lána til einstaklinga er þó öllu hærra hjá NBI en Arion, og nema tæplega fjórðungi. Í ársreikningi NBI kemur fram að lán til einstaklinga hafi verið færð á 66% bókfærðs virðis yfir í nýja bankann. Staðfesting fékkst á þeim útreikningum hjá NBI. Bankinn benti þó á að þessi afskrift væri færð sem tapaðir peningar í bókum bankans.

Íslandsbanki færði sína lánabók einnig yfir á 47% afslætti. Lán til einstaklinga eru um 36% af allri lánabók Íslandsbanka. Ekki eru jafnnákvæmar upplýsingar um afskriftir vegna lána til einstaklinga í uppgjöri Íslandsbanka eða Arion-banka og hjá NBI.

Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði, segir að líklega hafi verið reiknað með ákveðnum afföllum á lánabók bankanna við yfirfærsluna. „Ég reikna með að menn hafi farið ofan í saumana á fjárhag stærstu lántakenda. Líklega var þó beitt heildstæðri aðferð á smærri lántakendur og meðaltalsafföll áætluð,“ segir Friðrik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert