Gjaldþrot blasir við fjórðungi heimila við innanverðan Húnaflóa eftir að stofnfjáraukning í Sparisjóði Húnaþings og Stranda breyttist í skuldafen. Áhrif á byggðina gætu orðið þungbær og langvarandi, að mati Byggðastofnunar. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Í tengslum við sameiningu sparisjóðsins við Sparisjóð Keflavíkur síðla árs 200 skrifuðu um 200 stofnfjáreigendur í Húnaþingi vestra og Bæjarhreppi sig fyrir nærri tveggja milljarða króna stofnfjáraukningu, í tveimur áföngum. Tóku flestir kúlulán, samkvæmt frétt Stöðvar 2, verðtryggt eða í erlendri mynt og áætlar Byggðastofnun að skuldirnar standi nú í um þremur milljörðum króna.
Í fréttinni kom fram að stofnféð væri nú svo gott sem glatað og eftir stæðu hrikalegar skuldir, í mörgum tilvikum 15-25 milljónir króna á hverju heimili. Eru einstök dæmi um skuldir á annað hundrað milljónir króna.
Haft var eftir Elínu R. Líndal, formanni Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, að hið sérstaka við þetta mál væri hvað stór hluti samfélagsins þarna væri undir, eða um fjórðungur heimila á svæðinu. Í samfélagslegum skilningi væri þetta mjög alvarlegt og stórt mál.
Samkvæmt frétt Stöðvar 2 standa nú yfir viðræður milli fulltrúa skuldaranna og kröfuhafa, sem eru Sparisjóður Keflavíkur og Landsbankinn. Féllust þeir á um sl. áramót að framlengja greiðslufrest fram í maí nk.