Lokað fyrir viðskipti þar til Icesave deilan leysist

Icesave deilan teygir sig greinilega víða.
Icesave deilan teygir sig greinilega víða. DYLAN MARTINEZ

Hún Maria Hedberg átti ekki til orð þegar tengiliður hjá bókunarfyrirtækinu wwww.booking.com sagði að lokað hefði verið fyrir nýskráningar íslenskra fyrirtækja á síðunni þar til að Icesave deilan hefði verið leyst.

Það var í febrúar sem Maria fór að vinna að vefsíðu Gistiheimilisins að Fitjum og skráningu hennar og ákvað að skrá síðuna á www.booking.com.  „Þetta er ein vinsælasta  bókunar vefsíða í heimi og þar er t.d. hægt að bóka hjá bæði Icelandair og Iceland Express. Ég fór inn á vefinn í byrjun febrúar og fyllti út þau gögn sem þarf til að skrá vefsíðu gistiheimilisins inn á bókunarvefinn. Svo heyri ég ekki neitt frá þeim þannig að  ég fer aftur þarna inn til að finna einhvern tengilið. Þar finn ég skrifstofu í Stokkhólmi og er mjög sátt með það því þá get ég talað sænsku.“

Maria hringdi svo til Svíþjóðar og talaði  við tengiliðinn fyrir Ísland, sem sagðist skyldu áframsenda póstinn hennar til yfirmanns síns og láta hana svo vita hvernig færi. Maria gafst svo upp á biðinni og hringdi til Stokkhólms í morgun.

Maria sagðist hafa fengið mjög loðin svör hjá tengiliðnum í byrjun. Fyrst hefði verið sagt að búið væri að loka fyrir nýskráningar og gat tengiliðurinn ekki alveg svarað fyrir hvar mál gistiheimilisins væri statt. Svo hefði tengiliðurinn farið að tala um að Íslendingar væru svo lélegir að borga þannig að Maria spurði hvort  það væri nú ekki rétt að gefa nýjum aðilum tækifæri til að láta á það reyna í staðinn fyrir að loka á þá.

„Þá andvarpaði hún og sagði ég skal bara segja þér hvernig staðan er. Framkvæmdastjórinn er breskur og næsti yfirmaðurinn er Hollendingur og þau hafa tekið þá ákvörðun að loka fyrir nýskráningar frá Íslandi vegna Iceasave.  Ég átti náttúrulega ekki til orð þegar hún sagði þetta við mig,“ sagði Maria. Það hefði bara verið lokað fyrir nýskráningar frá Íslandi.

Þegar Maria vildi vita hve lengi lokunin stæði yfir sagði  tengiliðurinn að skráning hennar væri nú komin á lista og þá væri hægt að skrá hana inn um leið og bannið félli niður.  

Ekki náðist í forsvarsmenn www.booking.com í Svíþjóð í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert