Skólayfirvöld og foreldrar vaki yfir líðan barnanna

Frá Hafnarfirði.
Frá Hafnarfirði. Ragnar Axelsson

Skóla- og félagsmálayfirvöld í Hafnarfirði hafa sent foreldrum í bænum bréf þar sem þeir eru hvattir til að vera vakandi yfir líðan barna sinna.

Tilefnið er sjálfsvíg tveggja ungmenna á grunnskóla- og menntaskólaaldri með stuttu millibili.

„Tvö börn eru farin með þessum hætti, það er tveimur börnum of mikið. Við höfum áhyggjur og því er ákveðin vinna að fara í gang innan Hafnarfjarðarbæjar sem snýr að fræðslu til foreldra og skólafólks,“ segir Eiríkur Þorvarðarson, yfirsálfræðingur grunnskóla Hafnarfjarðar.

Í bréfinu til foreldra segir m.a. að oft geti verið erfitt að átta sig á áhrifum svona atburða á líðan barna og unglinga, enda geti birtingarmyndin verið ólík frá einu barni til annars. „Þetta er mikill harmleikur sem hefur ekki bara áhrif á þá sem næst standa heldur á samfélagið í heild sinni.“ Starfsmenn skólans reyni að vera vakandi en hættan sé sú að vanlíðan barnanna fari leynt.

Foreldrar eru því hvattir til að ræða málin, sem komið hafa upp, við börn sín og óska skólastjórnendur eftir því að fá að vita ef ástæða er til að hafa áhyggjur af líðan nemenda.

Eiríkur segir að mikil samvinna sé komin af stað en hún sé á byrjunarstigi. „Þetta eru viðkvæm mál og við setjum það í grunninn að aðgát skal höfð í nærveru sálar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert