„Enginn ætti að græða á Icesave"

InDefence menn virðast sáttir með för sína til Hollands.
InDefence menn virðast sáttir með för sína til Hollands. Ómar Óskarsson

„Þeir spurðu hvassra spurninga,“ sagði Ragnar Ólafsson sem fór ásamt Magnúsi Árna Skúlasyni og Davíð Blöndal, á vegum InDefence hópsins á fund  með fjórum þingmönnum í fjárlaganefnd hollenska þingsins sl. þriðjudag. 

„Fundurinn var gagnlegur og við gátum komið að okkar helstu punktum  Til dæmis um að þeir væru að græða á vöxtunum en þeir tóku strax vel við sér þar og  sögðu að enginn ætti að græða. Sá punktur kom líka fram í umræðum á hollenska þinginu síðar, sem ef til vill má rekja til fundarins með okkur.“

Ragnari sagði að sér væri efst í huga að það væri mikið svigrúm til að auka og dýpka skilning Hollendinga á sjónarmiðum Íslendinga í þessu máli.  „Við fórum yfir helstu atriðin en hefðum viljað fá lengri tíma til þess að velta hlutunum fyrir okkur í sameiningu.“

Yfirlýst markmið InDefence með fundinum var að „kynna lagalega og efnahagslega stöðu Icesave málsins og afstöðu hópsins, auk þess að ræða fordæmalausar aðstæður Íslands sem vitnað er til í hinum svokölluðu Brussel viðmiðum sem þjóðirnar þrjár og Evrópusambandið undirrituðu í nóvember 2008.“

Þegar spurt er hvað fundurinn skilji eftir segir Ragnar það í fyrsta lagi mikla löngun til að tala aftur við hollensku þingmennina. InDefence telji sig hafa komið þeim punkti áleiðis að það ætti enginn að græða á Icesave. Þeir séu núna komir í samskipti við þingmennina í gegnum tölvupósta og annað og hvetji þingmenn hérlendis til að ræða þetta beint. Til þess að fá raunverulegan skilning á málinu þurfi menn að tala saman í góðu tómi.

Segir margt hafa komið hollensku  þingmönnunum á óvart

Ragnar segir að þingmönnunum hafi þótt eftirtektarvert að niðurstaða  þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave væri næstum því jafn afgerandi og þegar var kosið var um stofnun lýðveldisins árið 1944. Þá virtist sem ýmislegt hefði komið þingmönnunum á óvart.

Til dæmis þegar vitnað var til ummæla Wouter Bos, fyrrum fjármálaráðherra Hollendinga þar sem hann sagði að innstæðutryggingakerfin hefðu ekki verið hönnuð fyrir kerfishrun heldur fall einstaka banka. Þeir hafi látið lesa það fyrir sig þrisvar. „Þetta virtist vera nýtt fyrir þeim þannig að það gæti verið áhugavert ef fleiri gerðu sér  far um að útskýra röksemdir Íslendinga í málinu beint fyrir  þingmönnunum til að fá gagnkvæman skilning . Þá fannst mér fannst til dæmis ekki ljóst hjá þeim hvernig lagt var upp með forsendur innstæðusjóðanna.  Það er að þeir hefðu ekki verið hannaðir fyrir svona stór áföll.“

Þingmennirnir vísuðu til íslenskra fræðimanna

Þegar spurt er um þekkingu hollensku þingmannanna af málinu segir Ragnar að svo virtist sem mynd þeirra af málinu væri ófullkomin. Það væri munur á því hvort menn héldu að Íslendingar ætluðu ekkert að leggja til lausnarinnar og svo því þegar búið væri að útskýra að þjóðaratkvæðagreiðslan snerist um þennan tiltekna samning. Það væri þá kominn grundvöllur til að skoða málið upp á nýtt á ferskum grunni. 

„Þeir vísuðu til íslenskra fræðimanna sem töldu að skuldin yrði á endanum svipuð þeim upphæðum sem  önnur hafa líka þurft að leggja til, til að bjarga sínum bankakerfum. En þar vantaði algerlega inn í myndina áhættan sem fylgi slíkum útreikningum  og tókum við nokkurn tíma í að leiðrétta þar rangar forsendur.“

Ragnar segir hollensku þingmennina greinilega hafa orðið hugsi þegar þeir voru spurðir hvort Hollendingar hefðu sjálfir ekkert greitt út til innstæðueigenda ef þeir hefðu ekki átt von á að fá endurgreitt fá Íslendingum, enda voru þeir í reynd að bjarga eigin bankakerfi.

Spurðu hvort InDefence hefðu lausn á Icesave

Ragnar segir fundinn hafa verið heiðarlegan og  þeir hafi að sjálfsögðu haft visst frelsi til að tjá sig þar sem þeir séu hvorki í samninganefnd né komi fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Samræðurnar hafi orðið frjálslegri fyrir vikið sem Ragnar taldi fyrir gagnlegt báða aðila

„Hollensku þingmennirnir spurðu hvort við sæjum einhverja lausn á Icesave deilunni en við sögðum að við vildum frekar ræða forsendur og grunnatriði. Við værum ekki ríkisstjórn Íslands og hlutverk okkar aðeins að kynna málið frá okkar sjónarhorni.“

Útilokar ekki að fara á fund breskra þingmanna

Ragnar segir þetta fyrsta opinbera fundinn sem íslenskir aðilar eiga með þingmönnum í Hollandi til að ræða Icesave málið. Aðspurður segir hann ekki útilokað að eiga álíka fund með þingmönnum Breta en enn sem komið er sé slíkt bara hugmynd.  

Þingmennirnir sem InDefence sendimennirnir hittu eru Tang, van Dijck, Irrgang og Elias sem sitja ásamt  fleirum í fjárlaganefnd Hollendinga. Ragnar sagði í lokin að hópurinn væri þakklátur fyrir að fengið tækifæri til að hitta hollensku þingmennina og koma sínum sjónarmiðum varðandi Icesave á framfæri.

Ragnar Ólafsson
Ragnar Ólafsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka