Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, sagði á upphafi fundar samtakanna á Hótel Nordica að þolinmæði fyrirtækja og fólksins í landinu væri á þrotum gagnvart aðgerðaleysi stjórnvalda. Það dugir ekkert hálfkák," sagði Vilmundur í upphafi fundarins.
Vilmundur setti fundinn og fór stuttlega yfir stöðuna í efnahagslífinu, þar sem atvinnuleysi væri mikið og brottflutningar fólks hafnir. Lækka þyrfti vexti meira og örva fjárfestingar erlendra fyrirtækja. Hann sagði ríkisstjórnina hafa þetta í hendi sér en því miður hefði orðið dráttur á úrlausn margra mála.
Vilmundur sagði ljóst að draga þyrfti úr ríkisútgjöldum til að ná markmiðum í efnahagsáætlun AGS og stjórnvalda.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, kynnti stefnu samtakanna í atvinnnumálum, Atvinna fyrir alla, sem boðuð var á dögunum. Hann sagði nauðsynlegt að stjórnvöld og atvinnulífið tækju höndum saman. Styrkja þyrfti gengi krónunnar, ná niður vöxtum og örva atvinnulífið. Skera þyrfti niður útgjöld ríkisins um amk 80 milljarða króna.
Sagði Vilhjálmur einnig fjölmörg tækifæri til að skapa ný störf. 11 þúsund störf hefðu tapast á árunum 2008 og 2009 og nefndi hann nokkrar atvinnugreinar sem gætu skapað fjölda nýrra starfa, s.s. í ferðaþjónustu og stóriðju.
Þá gagnrýndi Vilhjálmur stjórnvöld fyrir skattlagningu á lífeyrissjóðina.