Þreyttur á þessu kjaftæði

„Ég er orðinn þreyttur á þessu kjaftæði að ríkisstjórnin sé ekkert að gera," sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, á fundi Samtaka atvinnulífsins um atvinnumál og vísaði þar m.a. til þeirrar gagnrýni sem forsvarsmenn í atvinnulífinu hefðu sett fram á Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra og VG fyrir ákvarðanir og áherslur í tengslum við Suðvesturlínu og aðrar stórframkvæmdir. 

Sagði Steingrímur að framgangur margra þeirra sem hefðu gagnrýnt Svandísi og VG vera þeim til skammar. Bað hann þá hina sömu að biðja Svandísi afsökunar. Sagði hann ríkisstjórnina hafa algerlega unnið samkvæmt stöðugleikasáttmálanum varðandi stóriðjuframkvæmdir en vandamálið væri fjármögnunin, hún væri föst. Sagði hann Suðvesturlínu hafa verið samþykkta á borði ráðherra í janúar sl. en núna í mars væru framkvæmdir ekki hafnar. Umhverfisráðherra væri búinn að staðfesta skipulag allra sveitarfélaga vegna þeirrar línu og þá væri Svandís búin að samþykkja flýtimeðferð til að leysa mál á Blönduósi fyrir mögulegt gagnver þar.

Hvað hef ég skrifað mörg ástarbréf?

Steingrímur beindi orðum sínum til forstjóra nokkurra orkufyrirtækja í salnum og spurði þá hvað hann hefði skrifað mörg „ástarbréf“ til að fá lán fyrir þá eða verjast gjaldfellingu lána. „Það klagar ekkert upp á mig í þessum efnum," sagði Steingrímur og bað nokkra menn að standa upp í salnum sem hefðu gagnrýnt stjórnvöld. Benti hann þá á Helga Magnússon, formann Samtaka iðnaðarins, sem stóð upp: „Helgi er hár og myndarlegur maður en hann mætti stundum gæta orða sinna, eins og að saka einn stjórnmálamann um að vera á móti hagvexti," sagði Steingrímur.

Að erindum loknum kvaddi Helgi Magnússon sér hljóðs og benti fundarmönnum á að lesa ræðu sína á nýlegum aðalfundi Samtaka iðnaðarins, sagðist Helgi hafa fullt málfrelsi og ef menn skoðuðu ræðuna vel mætti komast að þeirri niðurstöðu að þeir Steingrímur væru sammála um margt.

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Skapti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka