Boðað hefur verið til íbúaþings í Hafnarfirði í Lækjarskóla í dag undir yfirskriftinni Gaflarakaffi. Er öllum Hafnfirðingum, ungum sem öldnum boðið til að taka þátt í umræðum um framtíð og mótun bæjarfélagsins auk þess sem boðið verður upp á fyrirlestra um miðbæinn, upplandið og Óttarsstaðahöfn.
Í Gaflarakaffinu mun fólk skiptast á skoðunum og er því frjálst að koma og fara að vild, taka þátt í umræðum, hlusta á fróðlega fyrirlestra eða einfaldlega skilja eftir miða sem með athugasemdum, ábendingum og tillögum. Einnig verður umræðuborð þar sem "hverfið mitt" verður rætt. Fulltrúar bæjarbúa verða einnig á staðnum til skrafs og ráðagerða.
Frístundabíllinn býður uppá ókeypis akstur milli kl. 12:20 og 16:00 á meðan íbúaþingið stendur. Upphafs- og endastöð verður við Lækjarskóla og ekið verður skv. leiðarkerfi Frístundabílsins.
Gaflarakaffið verður sent út í beinni á www.hafnarfjordur.is og geta þeir sem ekki eiga heimangengt fylgst með því á Vefveitunni.