Fréttaskýring: Harpan mun skapa mikinn gjaldeyri

Mikill fjöldi sótti samkomuna sem haldin var í Hörpunni á …
Mikill fjöldi sótti samkomuna sem haldin var í Hörpunni á fimmtudaginn þar sem kynntir voru möguleikar hússins til ráðstefnuhalds. Ómar Óskarsson

Aðstandendur Ráðstefnuskrifstofu Íslands og Portusar ehf. boðuðu í vikunni fulltrúa 300 stærstu fyrirtækja landsins og ýmissa fagaðila til samkomu í nýbyggingu nýja tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu við Reykjavíkurhöfn til að kynna þeim möguleika sem Harpa skapar til alþjóðlegs ráðstefnuhalds hérlendis. Með samkomunni var ætlunin að blása til stórsóknar í þágu Hörpunnar á alþjóðlegum ráðstefnumarkaði.

Að sögn Péturs J. Eiríkssonar, stjórnarformanns Portusar, tókst samkoman í alla staði mjög vel. Gestir hafi fyrst og fremst verið fólk sem hafi áhrif og sambönd í heimi fagfélaga og viðskiptalífs og þeir hafi verið hvattir til að koma Íslandi og Hörpu á framfæri erlendis sem áhugaverðum ráðstefnustað. „Harpa verður tekin í gagnið í maí 2011. Húsið mun gjörbreyta öllum forsendum til ráðstefnuhalds á Íslandi enda aðstæður til slíkrar starfsemi með þeim glæsilegustu sem þekkjast,“ segir Pétur.

Eftir miklu að slægjast

Og það er eftir miklu að slægjast að sögn Péturs. Tíu 1.000 manna ráðstefnur eru taldar skila til dæmis um 260 milljónum króna í virðisaukaskatti, eingöngu af ráðstefnugjöldum og hótelkostnaði. Því til viðbótar fylgja tekjur af flugvallasköttum og af virðisaukaskatti vegna almennrar eyðslu ráðstefnugesta sem hingað koma.

Um 20.000 manns komu til Íslands á árinu 2009 vegna ráðstefnuhalds eða tæplega 4% erlendra ferðamanna hér á landi. Áætlað er að alþjóðlegur ráðstefnumarkaður velti jafnvirði yfir 1.500 milljörðum íslenskra króna á ári. Hlutur Íslands í þeim „potti“ er einungis 0,3%. Þegar nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa verður tekið í notkun gjörbreytast forsendur Íslendinga til að sækja fram á þessum mikilvæga markaði og auka verulega hlut sinn.

Forráðamenn Hörpu segja að vaxandi áhugi sé fyrir ráðstefnuhaldi í Hörpu. Reynslan sýni að ráðstefnum og fundum fjölgi þegar stórar ráðstefnumiðstöðvar séu teknar í gagnið.

Kristín Heimisdóttir, formaður Tannréttingafélags Íslands, ávarpaði gesti í Hörpu í tilefni af því að ein þeirra ráðstefna, sem þegar er búið að bóka í húsið, er Evrópuþing tannréttingasérfræðinga árið 2013. Kristín fagnaði sérstaklega áræðni og framsýni þeirra sem stuðluðu að því að ljúka framkvæmdum við tónlistar- og ráðstefnuhúsið.

„Þinghaldinu fylgir engin fjárhagsleg áhætta fyrir okkur en hins vegar þurfum við á mörgum fagaðilum að halda, svo sem listamönnum, matreiðslumönnum og tæknifólki. Hingað koma um 2.000 manns og dvelja í vikutíma á hótelum, borða á veitingastöðum og skilja eftir gjaldeyri sem íslensk þjóð þarf svo sannarlega á að halda,“ sagði Kristín.

Að sögn Péturs hafa fleiri stórir hópar pantað húsið nú þegar, t.d. ætli vegagerðarmenn að halda 1.300 manna ráðstefnu þar árið 2012.

AÐSTAÐAN 1. FLOKKS

AÐSTAÐAN í ráðstefnuhúsinu Hörpu verður mjög sveigjanleg í uppsetningu og allur tæknibúnaður hinn fullkomnasti, samkvæmt upplýsingum Péturs J. Eiríkssonar.

Þrír salir eru á annarri hæð og er tónleikasalurinn stærstur.

Að auki eru tveir fundarsalir á fyrstu hæð og átta minni fundarherbergi eru á fyrstu og fjórðu hæð. Stórt forrými er á fyrstu og annarri hæð, sem nýtist vel fyrir sýningar, móttökur og veislur. Gott eldhús verður í húsinu, veitingastaður og útsýnisbar á fjórðu hæð og kaffihús á fyrstu hæð.

Að sögn Péturs mun stærsti salurinn taka um 1600 manns en mismunandi er hve minni salirnir rúma marga. Alls geta 3-4000 manns verið í húsinu í einu.

„Það verður auðveldlega hægt að vera með fleiri en eina ráðstefnu í gangi í húsinu samtímis.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert