Meiri samdráttur í Finnlandi og Danmörku

Frá Helsinki.
Frá Helsinki. mbl.is/Baldur Arnarson.

Ef litið er á bæði árin 2008 og 2009 saman, þá er heildarsamdráttur þjóðarframleiðslu í kreppunni mestur í Finnlandi (6,6%) og næst mestur í Danmörku (6,0%). Ísland er í þriðja sæti með samtals 5,5% samdrátt, litlu meira en Svíþjóð (5,1%). Þetta kemur fram í grein Stefáns Ólafssonar prófessors í fréttabréfi Þjóðmálastofnunar.

Stefán vitnar þar til talna frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, og Hagstofu Íslands um þróun þjóðarframleiðslu í aðildarríkjunum, Íslandi og fleiri löndum á árinu 2009. Niðurstaðan er að samdráttur þjóðarframleiðslu á Íslandi var 6,5% á árinu 2009, en á árinu 2008 jókst þjóðarframleiðslan um 1,0%. Samanlagður er samdráttur þjóðarframleiðslu á Íslandi árin 2008 og 2009 því 5,5%.

Samkvæmt grein Stefáns varð mikill samdráttur í þjóðarframleiðslu Finna á árinu 2009, eða um 7,8%. Ísland var með 6,5%, Danmörk 5,1%, Svíþjóð 4,9% og aðeins um 1,5% samdráttur varð í Noregi á árinu 2009.

Hann segir hagvöxt í Danmörku hafa verið talsvert minni en á Íslandi á síðustu árum og almennt sé Dönum ekki spáð miklum hagvexti á næstu árum af bæði OECD og Eurostat.

„Það er athyglisvert í ljósi hins mikla áfalls er varð með fjármálahruninu á Íslandi að samdráttur þjóðarframleiðslu skuli ekki vera meiri en raun ber vitni," segir Stefán og bendir á að áður hafi verið spáð allt að 10% samdrætti þjóðarframleiðslu á árinu 2009, bæði af AGS, OECD og Seðlabanka Íslands. Spáð sé frekari samdrætti hér á landi á árinu 2010 og Seðlabanki Íslands hafi í janúar fært spá sína niður frá því sem áður var, m.a. vegna óvissu er tengist töfum við afgreiðslu Icesave-málsins.

Stefán Ólafsson
Stefán Ólafsson mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert