„Mér finnst fráleitt að búa til eins mikið skrifræði í kringum þessa atvinnuvegi og krafist er,“ segir Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, um kröfur Evrópusambandsins vegna umsóknar Íslands að ESB.
„Eigum við ekki fyrst að afgreiða það hvort aðild verði samþykkt áður en ráðist verður í gríðarlega mikinn stofnkostnað og breytingar?“, spyr Jón í samtali við Morgunblaðið.
Í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB kemur fram að íslensk landbúnaðarstefna samræmist ekki lögum og reglum ESB og breytinga sé þörf áður en til aðildar kemur. Þess er krafist að breyta söfnun og vinnslu tölfræðilegra upplýsinga, hefja undirbúning ýmissa gerninga að fyrirmynd ESB og koma á fót stofnunum til þess að hafa umsjón með framkvæmd sameiginlegu stefnunnar.
„Sérstaklega þarf að setja á laggirnar greiðslustofnun sem uppfyllir kröfur ESB og samþætt stjórnunar- og eftirlitskerfi,“ segir í skýrslunni. „Þetta er kostnaðarsamt og tímafrekt og ef af verður verður lagt af stað í grundvallarbreytingar áður en skýr þjóðarvilji í þessum efnum liggur fyrir,“ segir Jón.
Hann segir að ef vel ætti að vera þyrfti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið að tvö- til þrefalda starfsmannafjöldann vegna aðildarumsóknarinnar og augljóst að ef til aðildar kæmi þyrfti að þenja út starfsmannahaldið frekar.
Sjá nánari umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.