Kallað eftir breytingum til að auka skýrleika laganna

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri SFF
Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri SFF Hari

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, telur sig ekki hafa orðið tvísaga í afstöðu sinni til gjaldeyrislánanna, líkt og sagt var í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld. 

Í yfirlýsingu sem Guðjón sendi frá sér segir:  „Vegna fréttar í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 13. mars tel ég rétt að undirstrika að í þeirri umsögn eldri samtaka um vaxtalögin sem vísað er til í fréttinni, er kallað eftir breytingum á frumvarpinu til að auka skýrleika laganna. Komið er á daginn að þar hafa eldri samtök haft nokkuð til síns máls. Ljóst er þó að löggjafinn deildi ekki áhyggjum samtakanna af þessu á sínum tíma.Umsögnin er samin árið 2001 í tengslum við þinglega meðferð frumvarps til vaxtalaga. Ekki er hægt að túlka hana svo að í henni felist dómur um það hvort skilmálar einhverra lána fjármálafyrirtækja sem síðar komu til sögunnar séu löglegir eða ólöglegir, enda bera fjármálafyrirtækin sjálf ábyrgð á útfærslu sinna lánasamninga.


Í fyrrgreindri umsögn er m.a. horft til athugasemda við viðkomandi ákvæði í lagafrumvarpinu sjálfu þar sem frumvarpshöfundarnir segja „Allar þessar breytingar vekja upp spurningar um gildissvið og gagnsemi opinberra reglna um verðtryggingu fjárskuldbindinga.“  Óskýrleiki laganna endurspeglast í því nú að hafa með fárra mánaða millibili fallið tveir andstæðir héraðsdómar um lán í erlendri mynt.


Samtök fjármálafyrirtækja telja brýnt að niðurstöður hæstaréttar í þessum málum liggi fyrir sem fyrst og hafa hvatt Alþingi til lögfesta eins skjótt og verða má fyrirliggjandi frumvarp um flýtimeðferð dómsmála á þessu sviði.  Ganga verður út frá því að fjármálafyrirtæki sem veitt hafa slík lán hafi talið þau byggja á lögmætum grunni, enda hvílir á þeim rík ábyrgð að fylgja lögum og reglum í sinni starfsemi. Nú er uppi ágreiningur um lögmæti lánanna og brýnt að úr honum verði skorið sem allra fyrst.„

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka