Eldur kom upp í stórum flutningabíl, svo nefndri Búkollu, á Suðurstrandarveginum um hálf ellefuleytið í morgun. Engan sakaði, en trukkurinn er talinn ónýtur.
Verið var að vinna við lagningu Suðurstrandarvegar er ökumaður einnar vinnuvélarinnar varð var við eld í vörubílnum. Hann varaði ökumann bílsins við og sá náði að stökkva út úr bílnum með vinnugallann í höndunum á meðan eldurinn magnaðist hratt. Reynt var að ráða niðurlögum eldsins með slökkvitæki en án árangurs.
Það skíðlogaði í vörubílnum er lögregla og tveir slökkvibílar frá slökkvilið Þorlákshafnar komu á staðinn. Vel gekk að slökkva eldinn, en Búkollan er þó talin ónýt.