Gagnast ekki þeim verst settu

Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson Rax / Ragnar Axelsson

„Það er augljóst að með almennum aðgerðum er ekki verið að gæta hagsmuna þeirra sem eru í mestum vanda,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. „Við hjá ASÍ erum talsmenn þess að leysa úr vanda þeirra fyrst og ef menn telja að til séu fjármunir til að lækka skuldir almennt hjá öllum, þá er hægt að taka þá umræðu síðar. Við höfum aldrei verið fylgjandi því að fólk með miklar eignir og háar tekjur geti fengið frjálsa afskrift skulda á til dæmis bíl, hlutabréfum eða öðru. Ef menn hafa greiðslugetu og eignastöðu þá eiga þeir einfaldlega að standa við skuldir sínar.“

Á fimmtudag fundaði Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra með fulltrúum fjármögnunarfyrirtækja og kynnti þeim frumvarp þar sem m.a. er gert ráð fyrir afskriftum bílalána þannig að eftir verið 110% af markaðsvirði þeirra. Fulltrúar vinnumarkaðarins funduðu hins vegar með forsætisráðherra og fleirum á föstudagseftirmiðdag í tengslum við stöðugleikasáttmálann en Gylfi segir ekki hafa verið farið í einstakar aðgerðir sem eru í farvatninu á þeim fundi.

„Þar var ríkisstjórnin annars vegar að gera grein fyrir stöðunni varðandi atvinnumálin, en við höfum gagnrýnt hana harðlega fyrir ákvörðunarleysi í þeim efnum.“ Hann segir ríkisstjórnina hafa gert grein fyrir jákvæðum aðgerðum í þeim efnum, s.s. nýsamþykkt lög þar sem kveðið er á um aukinn stuðning við sprotafyrirtæki.

Þá segir Gylfi ríkisstjórnina hafa kynnt þá vinnu sem verið hefur í gangi varðandi aukinn rétt skuldara. „Ég vona að í næstu viku verði kynnt frumvarp þar sem sérstaklega er lögð áherslu á að bæta réttarúrræðin þannig að samningsstaða einstaklinga verði betri gagnvart bönkunum, bæði í aðdraganda gjaldþrots eða nauðasamninga og í frjálsri greiðsluaðlögun. Sömuleiðis verði settar takmarkanir fyrir því með hvaða hætti lögfræðingar, sem vinna fyrir kröfuhafa,  geta reiknað sér þóknanir.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka