Gengur hægt að koma á fundi

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. Ernir Eyjólfsson

„Það hefur reynst aðeins þyngra að koma þessu af stað aftur en við höfðum vonað og það eru ákveðnar ástæður fyrir því en það hjálpar ekki málinu mikið að vera að úttala sig um það," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Enn hafa engar ákvarðanir verið teknar um áframhaldandi samningaviðræður vegna Icesave-málsins. Íslenska samninganefndin hefur því ekki fundað formlega með þeim bresku og hollensku síðan fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna hinn 6. mars, en áður en hún sneri heim var lagt upp með framhald viðræðna um lausn.

„Það var ljóst að menn vildu fara yfir stöðuna báðum megin eftir helgina og eins að það þyrfti smáundirbúningsvinnu en það er alveg klárt af okkar hálfu að við erum alveg tilbúin, það stendur ekkert á okkur," segir Steingrímur.  Hollendingar og Bretar eru hins vegar tregari til að ákveða fund. Steingrímur segir heldur engar ákvarðanir hafa verið teknar um hvort íslenska samninganefndin fari áfram út eða hvort fundirnir verði hugsanlega fluttir til Íslands.

„Á meðan menn eru ekki búnir að koma sér saman um grundvöllinn eða ná saman um hvernig eigi að byrja upp á nýtt eru menn ekki að eyða tíma í hvar það verði gert. En reyndar höfum við boðist til að vera gestgjafar og værum mjög hamingjusöm með það að næsti fundur yrði á Íslandi ef það gæti hentað, en við látum það ekki stranda á því enda er grundvallaratriðið að koma þessu af stað aftur."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert