Nóttin var annasöm hjá lögreglunni á Akranesi. Mikið var um ölvun og var einn handtekin fyrir líkamsárás.
Braut maðurinn glas á höfði annars á dansleiki sem fram fór í bænum. Atburðurinn átti sér stað um þrjúleytið. Sá sem fyrir árásinni varð leitaði sér sjálfur aðhlynningar á sjúkrahúsinu á Akranesi. Hann var ekki talinn alvarlega slasaður. Árásarmaðurinn var hins vegar handtekinn og látinn sofa úr sér í fangageymslum lögreglu.
Tveir menn voru þá teknir fyrir fíkniefnamisferli. Voru þeir með vörsluskammta af örvandi efnum, en báðir hafa komið við sögu lögreglu áður. Öðrum mannanna var sleppt í nótt að loknum yfirheyrslum, en hinn verður yfirheyrður í dag.
Þá tók lögreglan mann fyrir ölvunarakstur og var hann sviptur ökuréttindum til bráðabirgða á staðnum.