Umræða um Icesave skilað árangri

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Ómar

Opin umræða um Icesave er þegar farin að skila árangri. Ferillinn, sem  málið fór inn í við ákvörðun forseta Íslands um að vísa málinu til þjóðarinnar að kröfu fjórðungs kosningabærra manna í landinu, hefur orðið til góðs. Þetta segir Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, í pistli á heimasíðu sinni.

Ögmundur segist hafa tekið saman á síðu sinni nokkur dæmi um hvernig opin umræða á vettvangi Norðurlandaráðs, í norrænum og evrópskum stjórnmálaflokkum, Evrópuráðinu og á vettvangi fjölmiðlanna hefði „þokað okkur áfram, af hnjánum og upp á fæturna.“

Margir hafi látið að sér kveða í þessari umræðu og nefnir Ögmundur Evu Joly, forseta Íslands og Össur Skarphéðinsson.

„Árangurinn er smám saman að koma í ljós. Sinnaskipti virðast þannig vera að eiga sér stað í norsku ríkisstjórninni. Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, hefur nú lýst því yfir að Norðmenn séu tilbúnir að fjalla um efnahagsáætlun AGS og Íslands óháð Icesave-deilunni. Það er meðal annars fyrir orð norsks almennings sem lætur sig örlög okkar, frændþjóðarinnar, miklu varða.
Svíar búa hins vegar undir Íhaldsstjórn sem hefur stillt sér upp með fjármagninu - kannski í og með vegna þess að sænskir fjármálabraskarar eru með krumlurnar um hálsinn á Eystrasaltsríkjunum og vilja engin fordæmi um eftirgjöf fjármálahagsmuna," segir Ögmundur í pistli sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert