Geitungar í atkvæðagreiðslu um Eurovision

Geitungabú.
Geitungabú.

Náttúrufræðistofnun segir, að borið hafi á því að geitungar hafi rumskað af vetrarsvefni nú á útmánuðum 2010 í meiri mæli en áður hafi vitnast. Segir stofnunin ekki ljóst hvort ástæðuna megi rekja til einstakrar veðurblíðu eða þess að óvenju margar drottningar bíða nú vorsins.

Stofnunin hefur fengið átta tímasettar tilkynningar um árrisula geitunga og hafa eintök fylgt fimm þeirra. Þau reyndust öll vera  holugeitungar.

Tilkynningarnar eru raktar á vef Náttúrufræðistofnunar. Fyrsta tilkynningin er frá 9. janúar þegar tveir geitungar tóku að flögra um í uppsökusal Sjónvarpsins þegar atkvæðagreiðsla fór fram um Eurovisionlag.

Segir stofnunin að efni í innréttingar salarins hafði verið tekið inn úr kulda og hafi kvikindin væntanlega borist með því og rumskað í sviðsljósinu. Ekki fylgdi sögunni hvort geitungarnir hafi náð að greiða atkvæði eða haft nokkur önnur áhrif á úrslit.

Þá er rakið, að í síðustu viku hafi geitungur komist inn í íbúð í Smáíbúðahverfi í Reykjavík. Í loftinu sem aðskildi svefnherbergi hjóna frá háalofti var óþétt rafmagnsdós. Svo illa vildi til í þessu tilviki að geitungurinn féll ofan í svefnfleti hjóna og varð valdur að illa þokkuðu rúmruski er frúin lagðist á bólfélagann óvænta. Sá snérist til varnar snarlega með því tóli sem hann kann best að beita, segir Náttúrufræðistofnun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert