Sitt sýnist hverjum um hugmyndir félagsmálaráðherra um afskriftir höfuðstóls bílalána umfram 110 prósent af markaðsvirði bílanna.
Í Morgunblaðinu í dag eru raktar áhyggjur eignarleigufyrirtækjanna af þeirri mismunun sem þau segja hljótast af því ef þessar hugmyndir verða að veruleika. Benda forsvarsmenn þeirra á að slíkar aðgerðir gagnist mest þeim sem keyptu dýra bíla á hlutfallslega háum lánum, en það séu einmitt þeir bílar sem hafi lækkað einna mest í verði. Þeir sem keyptu ódýrari bíla og lögðu sjálfir til stærri hlut af bílverðinu við kaupin hagnist hins vegar lítið á aðgerðunum, segja talsmenn fyrirtækjanna.
Þeir gagnrýna einnig að með aðgerðunum sé ekkert tillit tekið til fjárhagslegrar stöðu þess sem fær afskriftirnar - að þeir sem græði mest séu ekki endilega þeir sömu og séu í mestu greiðsluerfiðleikunum. Þá verði erfiðleikum bundið að meta hvert raunverulegt markaðsvirði bílanna sé.
Mbl Sjónvarp reyndi ítrekað að ná í Árna Pál Árnason félagsmálaráðherra í dag svo hann gæti svarað þessari gagnrýni en án árangurs.
Samtök lánfjáreigenda sendu svo frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þau gagnrýna að Árni Páll hafi ekki beðið dóms Hæstaréttar um lögmæti gjaldeyrislána áður en gripið væri til slíkra aðgerða. Samtökin segjast óttast að tjón sem skapast af óvönduðum vinnubrögðum við samningsgerð fjármögnunarfyrirtækja lendi á skattgreiðendum.
Þessari yfirlýsingu svaraði Árni Páll skriflega til fjölmiðla, þar sem hann sagði óþarfi að óttast að fyrirhugaðar aðgerðir hefðu neikvæð áhrif á réttarstöðu skuldara þar sem aðgerðirnar myndu aldrei taka betri rétt af lánþegum sem tekið hefðu lán, dæmdu dómstólar þeim í hag.
Þá ítrekaði hann að hugmyndunum væri ætlað að ná samhengi milli skuldastöðu heimilanna og greiðslugetu þeirra. Útfærslur á tillögum hans væru enn í vinnslu og yrðu kynntar síðar.