Sterkari skilningur en áður

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi í …
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi í dag. mbl.is/Ómar

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag að það væri sitt mat, að sterkari skilningur væri á málstað Íslendinga á hinum Norðurlöndunum nú en áður. 

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, bað Össur um að gera nánari grein fyrir fundi sínum með hinum utanríkisráðherrum Norðurlanda í síðustu viku. Sagði hann að á meðan Norðurlöndin tengdu saman lausn Icesave-deilunnar og afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á efnahagsáætlun Íslands myndi ekkert gerast hjá sjóðnum.

Össur sagði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði talað með þeim hætti, að ef fjármögnun efnahagsáætlunarinnar fengist þá væri ekkert að vanbúnaði með að halda henni áfram. Össur sagðist hafa lagt mikla áherslu á að Norðurlöndin stæðu með Íslandi varðandi fjármögnun á áætlun AGS.  

Á fundinum í Kaupmannahöfn og eftir hann hefði komið fram að Norðmenn gera skýran greinarmun á áætlun AGS annars vegar og Icesave hinsvegar. Þeir segi, að ef Íslendingar uppfylli tæknileg skilyrði, sem AGS setur, þá séu þeir reiðubúnir til að halda áfram þar sem frá er horfið.

Sú afstaða hefði hins vegar komið fram hjá hinum Norðurlöndunum, að æskilegt væri að ganga frá Icesave-málinu áður en áætlun AGS gæti haldið áfram. Hefðu þeir meðal annars fært rök fyrir þeirri afstöðu, að þeir þinglegu textar, sem liggja að baki samþykkta þjóðþinga landanna um lánveitingar til Íslands, séu þess eðlis að framkvæmdavaldið telji sig ekki geta gengið lengra nema þessum textum verði breytt.

Bjarni  lýsti ánægju með þá viðhorfsbreytingu sem komið hefði fram hjá Norðmönnum en að sama skapi vonbrigðum með afstöðu hinna Norðurlandanna.  Það gæti farið vel á því, að Íslendingar sendi Norðurlöndunum það tilboð, sem þeir gerðu Bretum og Hollendingum nýlega og þá kynnu augu frændþjóðanna að opnast fyrir því að óréttlátt væri að gera þessa tengingu.

„Staðreynd málsins er sú, að við höfum fyrir löngu boðið sanngjarnar lyktir Icesave-deilunnar. Við höfum boðið ríkisábyrgð fyrir þessari lágmarkstryggingu og Bretar og Hollendingar eru að fara fram á hluti, sem fara langt fram úr því sem er sanngjarnt og eðlilegt að krefjast," sagði Bjarni.

Össur sagðist sammála Bjarna um að óréttlátt væri að gera þessa tengingu. Hann sagði það sitt mat að sterkari skilningur væri á Norðurlöndunum en áður og sérstaklega skipti það máli, að Norðmenn hefðu tekið þetta skref. Hins vegar þyrftu hin Norðurlöndin að taka svipaða afstöðu en menn hefðu einnig fundið fyrir vaxandi skilningi á þjóðþingum landanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert