Styður bann við nektardansi

Forvitinn gestur fylgist með súludansi á bar í Amsterdam.
Forvitinn gestur fylgist með súludansi á bar í Amsterdam. Reuters

Allsherjarnefnd Alþingis leggur til að frumvarp um bann við nektarsýningum í atvinnuskyni á skemmtistöðum taki gildi 1. júlí næstkomandi. Fyrir nefndinni kom fram að nektardansstaðir byggja nær einungis á ungum erlendum stúlkum og koma nokkur hundruð þeirra hingað á hverju ári í þeim tilgangi. 

Áliti allsherjarnefndar var dreift á Alþingi í dag. Þar segir m.a. um nektardansmeyjarnar: „Hefur lögregluyfirvöldum verið mikið í mun að tryggja öryggi þeirra en þar sem þær stoppa mjög stutt á landinu hefur reynst erfitt að kanna stöðu þeirra, aðstæður og ástæður fyrir því að þær stunda þessa iðju eða hvort þær eru þvingaðar til þess með einum eða öðrum hætti. Þá hefur einnig reynst erfitt að sinna eftirliti með stöðunum hérlendis.“

Málið er endurflutt á Alþingi nú. Við fyrri afgreiðslu málsins, á 136 löggjafarþingi, var allsherjarnefnd sammála um að leggja til að málið yrði afgreitt. Í nefndarálitinu nú er vísað í fyrra álit þar sem segir m.a.:

„[A]ð rekstraraðilum megi vera ljóst að þessi hluti rekstrarins byggist á undanþágu frá meginreglu laganna um að veitingastöðum sé hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem eru á staðnum og að undanþáguheimildina beri að skýra þröngt.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka