Stjórnarmeirihlutinn virðist nú hafa sett stefnuna á að lög um ráðgefandi stjórnlagaþing, sem fjalli um breytingar á stjórnarskránni, verði samþykkt fyrir vorið og persónukosningarnar gætu farið fram í haust. Málið er umdeilt, framkvæmdin flókin og fjölmörg álitamál uppi.
Miðað er við að minnst 25 og mest 31 þjóðkjörinn fulltrúi sitji þingið sem komi saman strax í október og skili svo niðurstöðum sínum á næsta ári. Öllum sem uppfylla skilyrði um kjörgengi til Alþingis yrði frjálst að bjóða sig fram ef þeir safna nöfnum 30-50 meðmælenda. Áhugasamir þyrftu því að nota sumarið vel í kosningaundirbúninginn því skila þarf framboðum 6 vikum fyrir kjördag. Verði þetta raunin á landskjörstjórn að annast kynningu frambjóðenda. „Þetta verkefni er ólíkt öðrum viðfangsefnum landskjörstjórnar og spyrja má hvort annar aðili sé e.t.v. betur til þess fallinn að annast þennan þátt í undirbúningi kosninganna,“ segir í umsögn formanns landskjörstjórnar við frumvarpið.
Engin leið er að gera sér grein fyrir hversu margir myndu sækjast eftir kjöri, en af umsögnum til allsherjarnefndar má ráða að frambjóðendur gætu skipt hundruðum.
Persónukjör af þessu tagi yrði alger nýlunda hér á landi og ýmsar flækjur í framkvæmd kosninganna, ekki síst ef kjósendur eiga að velja úr nafnalista nokkur hundruð frambjóðenda og raða þeim í forgangsröð. Þorkell Helgason, stærðfræðingur og ráðgjafi landskjörstjórnar, skilaði allsherjarnefnd minnisblaði með skoðun sinni á þessum álitaefnum í seinustu viku. Hann bendir á að talning atkvæða, þar sem frambjóðendum er raðað, sé mörgum nokkurt áhyggjuefni, einkum þegar frambjóðendur kunna að skipta hundruðum. Ef kjósendum yrði heimilað að krossa við frambjóðendur í stað þess að raða þeim verði að hans mati að leyfa fleiri en einn kross, jafnvel 25. Krossatalning atkvæða yrði líka umfangsmikil og telur Þorkell að lítill munur sé á flækjustigi röðunar frambjóðenda og krossamerkingarinnar hvað sjálfa talninguna varðar. Að mati hans yrðu úrslit stjórnlagaþingskosninga ekki ljós fyrr en nokkrum dögum eftir að þeim lýkur.
Sá möguleiki hefur einnig verið ræddur í allsherjarnefnd að tiltekinn hluti þingfulltrúa verði valinn með handahófskenndri aðferð úr þjóðskrá. Í svari forsætisráðuneytisins til allsherjarnefndar er bent á að tölfræðilega séð aukist hætta á því, vegna þess hve úrtakið er lítið, að sá hópur sem dreginn yrði út verði einsleitur. Við því megi hins vegar bregðast með því að skilgreina fyrst markhópa og draga svo einn úr hverjum hóp.