Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda leggja til, að aflaheimildir í þorski verði þegar í stað auknar og verði við ákvörðun aukningar litið til meðal ársveiði undanfarin 7 ár. Segja samtökin að slík aðferð myndi gefa svigrúm til aukningar á þorskkvóta um 43 þúsund tonn.
Samtökin segjast telja, í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um stofnstærð, að þessi aukning aflaheimilda muni ekki stofna þorskstofninum í hættu. Verði þessi leið farin sé ljóst, að komið verður í veg fyrir vinnslustöðvun vegna hráefnisskorts og um leið séu varin störf og ný störf sköpuð.
Samtökin leggja jafnframt til að aukning aflaheimilda lúti ströngum skilyrðum, þar á meðal að helmingi viðbótarinnar verði úthlutað sem aflamarki til útgerða samkvæmt aflahlutdeild en hinn helmingurinn sé til útleigu gegn hóflegu veiðigjaldi og bundinn þeim skilyrðum að aflanum yrði landað á fiskmarkað.
Þá verði 100% veiðiskylda á öllum viðbótaraflaheimildum, aflaheimildirnar verði óframseljanlegar, flutningur þeirra á milli fiskveiðiára óheimill og óheimilt verði að nota aflaheimildirnar í tegundatilfærslu.