Fólksfækkun varð á landinu á árinu 2009 í fyrsta sinn frá lokum 19. aldar. Þann 1. janúar 2010 voru 317.630 íbúar með fasta búsetu á Íslandi, samanborið við 319.368 ári áður. Fækkunin nemur hálfu prósenti. Á síðustu fimm árum hefur fjölgun landsmanna þó verið hlutfallslega ör eða 1,6% á ári að jafnaði.
Að sögn Hagstofunnar fækkaði fólki á öllum landsvæðum á árinu 2009. Fækkunin varð mest á Austurlandi og á Vesturlandi, en minnst á Norðurlandi vestra, Vestfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu. Mannfækkunin stafar af miklum búferlaflutningum frá landinu, að sögn Hagstofunnar.
Á undanförnum fimm árum varð íbúafjölgunin mest á Suðurnesjum, en á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi hefur fjölgað lítillega meira en sem nemur landsmeðaltali, en lítillega undir landsmeðaltali á Vesturlandi. Á Austurlandi og Norðurlandi eystra fjölgaði talsvert minna en sem nemur landsmeðaltali. Á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra varð fólksfækkun á síðustu fimm árum.