Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að forgangsverk sé að stækka lögregluembætti landsbyggðarinnar og skilja frá embættum sýslumanns, og sameina yfirstjórn lögreglu. „Við byrjum á því, svo kemur hitt á eftir,“ sagði Ragna en bætti við að fjölmargt fleira sé í deiglunni, s.s. skilgreining grunnþjónustunnar og ákvarðanir um hvaða verkefni verða færð frá lögreglu.
Rætt var um þjónustu- og öryggisstig lögreglu utandagskrár á Alþingi í dag. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hóf umræðuna og spurði dómsmálaráðherra út í stöðuna í dag og hvað framundan sé.
Ragna sagði að embætti ríkislögreglustjóra hafi þegar kynnt dómsmálaráðuneytinu skýrslu um grunnþjónustuna. Hún hafi falið embættinu að vinna málið áfram á grundvelli þeirrar skýrslu. Hún sagði að það verði að flokka hvað teljist til grunnþjónustu lögreglu, hvað sé nauðsynlegt fyrir samfélagið og án hvers er ekki hægt að vera.
„Við getum ekki setið uppi með það að lögregla sinnir ekki verkefni sem búið er að taka af henni og fólki finnist samt sem áður að hún eigi að vinna,“ sagði Ragna og að unnið sé að málinu af kostgæfni. Útfært verði í frumvarpstexta hvaða verkefni hægt sé að færa frá lögreglu og hvert skal færa þau.
Hvað varðar skipulagsmál sagði Ragna að alla möguleika verði að skoða til hagræðingar. Fagleg rök hnígi að því að útbúa embætti lögreglu þannig að þau séu stór og öflug, ekkert vit sé í að hafa misöflug lögregluembætti um landið. Þau þurfi að hafa svipað vægi.