Segja ekkert kaupaukakerfi í Landsbanka

Landsbankinn segir ekkert hæft í umræðu um kaupaukakerfi.
Landsbankinn segir ekkert hæft í umræðu um kaupaukakerfi. mbl.is

Umræða um innleiðingu kaupaukakerfis í Landsbankanum er algerlega ótímabær og ekkert slíkt kerfi hefur verið tekið upp segir í yfirlýsingu frá bankanum. Sagt er alrangt  hjá formanni viðskiptanefndar Alþingis að búið sé að semja um kaupaukakerfi fyrir æðstu stjórnendur.

Bankaráð Landsbankans hafi ekki  fjallað um slíkt kerfi og engin útfærsla verið samþykkt.

Þá segir í yfirlýsingu Landsbankans.

“Að frumkvæði kröfuhafa var gert samkomulag á milli skilanefndar Landsbanka Íslands hf.  (gamla bankans), fjármálaráðuneytisins f.h. ríkissjóðs og Landsbankans (NBI hf.) um að hluti hlutabréfa í NBI hf. sem skilanefndin heldur nú á, myndi stofn fyrir kaupaukakerfi sem næði til allra starfsmanna og kæmi til framkvæmda  á löngum tíma. Fjöldi þeirra hlutabréfa sem myndar stofninn ræðst af hugsanlegri verðmætaaukningu tiltekins hluta eignasafns bankans. 

Hugsanlegt er því að kaupaukakerfi taki gildi eftir að þessi hluti eignasafns bankans hefur verið endurmetinn í árslok 2012 eins og gert er ráð fyrir í samningunum. Í þessu eignasafni eru engin einstaklingslán, svo sem hefðbundin íbúðalán, heldur eingöngu stærri lán til fyrirtækja þar sem mikil óvissa ríkir um verðmætið og miklu skiptir hvernig unnið er úr. 

Ekkert er hæft í því að starfsmenn fái kaupauka fyrir að ganga hart fram gagnvart skuldurum. Þvert á móti. Framtíðarhagur Landsbankans og þar með verðmæti hlutabréfa  í bankanum mun endurspeglast í traustum rekstri fyrirtækja sem vonandi verða viðskiptavinir bankans um langa hríð. Hagur atvinnulífsins og bankans fara því saman að þessu leytinu.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert