„Enginn samningsvilji hinum megin“

Fulltrúar flugumferðarstjóra á fundi hjá ríkissáttasemjara.
Fulltrúar flugumferðarstjóra á fundi hjá ríkissáttasemjara.

Viðsemjendur flugumferðastjóra hafa hafnað tillögu þeirra um lausn á yfirstandandi kjaradeilu. Flugumferðarstjórar lögðu tillöguna fram hjá ríkissáttasemjara um tvöleytið í dag og aflýstu á sama tíma boðuðum verkföllum á morgun, miðvikudaginn 17. mars, og á föstudaginn kemur, 19. mars.

„Við fengum tilboð frá þeim í gær sem var ekki okkur að skapi og lögðum fram tillögu í dag en henni var hafnað fljótlega,“ sagði Ottó Garðar Eiríksson, formaður Félags íslenskra flugumferðastjóra. Boðuðum verkföllum hafi verið aflýst í góðri trú um að unnið yrði með hugmyndirnar sem lagðar voru fram. „En þeir höfnuðu þessu algjörlega. Það hefur greinilega aldrei verið hugmyndin að semja við okkur, heldur hefur bara átt að beita okkur lögum.“ 

Ekki liggi fyrir hvað gerist næst, eða hvort frekari verkföll verði boðuð. Trúnaðarmannaráð hafi komið saman en ekki verði boðað strax til fundar með félagsmönnum. Flugumferðastjórar eru þó vissulega ósáttir með stöðu mála.„Það virðist bara vera stefnan nú að láta lög ganga yfir verkalýðinn.“

Deilan er þó enn hjá sáttasemjara, en Ottó segir ekki vitað hvort hann  sjái tilefni til að boða fund á næstunni. „Það verður bara að koma í ljós. Við bíðum og sjáum, en það er greinilega enginn samningsvilji hinum megin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert