Fulltrúar bankanna spurðir út í bónuskerfi

LIlja Mósesdóttir
LIlja Mósesdóttir Kristinn Ingvarsson

Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis, mun kalla fulltrúa bankanna og bankasýslunnar á fund nefndarinnar til að spyrja út í hugmyndir þeirra til árangurstengdra launagreiðsla til starfsmanna, en einnig til að lýsa skoðunum nefndarinnar á málinu.

Í upphafi þingfundar á Alþingi í dag hóf Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, umræðu um fregnir þess efnis að bankarnir vilji taka upp bónuskerfi til starfsmanna. Hann sagði að allir ættu að vera meðvitaðir um þá hættu sem því fylgir, og ef af verður ætti Alþingi að skattleggja þær greiðslur upp í rjáfur. Sagði Róbert það mikilvægt, s.s. til að skila einhverjum af þeim fjármunum til baka sem þarf að skera niður um vegna falls þeirra.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, tók í sama streng og bætti um betur. Hann sagði að Alþingi ætti að ræða hvort ekki ætti að banna slíkar greiðslur, enda séu það heildarhagsmunir allra að endurskipulagning bankanna fari vel fram. Starfsmenn eigi ekki að hafa önnur sjónarmið en sanngirnis, og eigi ekki að reyna ná sem mestu úr kröfunum eða lengja ferlið lengur en þarf.

Lilja Mósesdóttir sagði algjörlega ótímabært að innleiða hvatakerfi fyrir bankastarfsmenn, enda ljóst að það leiddi til þess að margir starfsmenn settu hag sinn ofar viðskiptavina. Hún segir viðskiptanefnd ekki sætta sig við nýtt bónuskerfi á þessum tíma og þeim  boðum verður komið til fulltrúa bankanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert