Stjórnvöld segja að rannsókn á skattalagabrotum í tengslum við banka hrunið hafi leitt í ljós, að tekjur sem nema hundruðum milljarða króna hafa ekki verið taldar fram til skatts í bankakerfinu eins og lög gera ráð fyrir. Aðallega eru um að ræða tekjur vegna afleiðuviðskipta með hlutabréf og gjaldeyri.
Þetta kom fram hjá Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, og Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, eftir ríkisstjórnarfund í dag. Steingrímur lagði áherslu á, að frumvarp um heimild til að frysta eignir verði afgreitt á þinginu til að tryggja að hægt verði að heimta þetta fé.
Jóhanna sagði að svo virtist sem svart skattkerfi hefði verið inni í bönkunum. Þau Jóhanna og Steingrímur sögðu, að þessi úttekt sýndi að ærin þörf væri á að grípa til aðgerða. Verður embætti skattrannsóknastjóra eflt til að fylgja þessum málum eftir og skipaður þar sérstakur hópur, sem mun telja allt að 20 manns.
Jóhanna sagði, að tvívegis áður hafi farið fram úttektir, sem sýndu fram á að verulega þyrfti að taka til höndunum í rannsókn á undanskotum frá skatti. Síðast hefði það verið gert fyrir fimm árum en ekki verið fylgt eftir. Sagði Jóhanna, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki virst hafa haft áhuga á að fylgja þessum málum eftir.