Hægt miðar í kjaraviðræðum milli verkalýðsfélags Akraness og Norðuráls. Deilendur funduðu í Karphúsinu í gær án árangurs. Fundur er boðaður á fimmtudag. Óþreyju er farið að gæta meðal starfsmanna Norðuráls, segir Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélagsins.
„Kjarasamningurinn rann út 1. janúar og þar af leiðandi áttu laun að hækka frá og með þeim tíma. Það er allt í landinu að taka stórkostlegum hækkunum og fólk á því að erfitt með að bíða eftir sínum kjarasamningsbundnum hækkunum,“ segir hann.
Vilhjálmur segir gott svigrúm sé til launahækkana hjá álverinu: „Ef einhver fyrirtæki á Íslandi hafa burði til að hækka laun eru það þau í áliðnaði. Það á að vera skýlaus krafa hjá okkur að erlendir eignaraðilar greiði hér góð laun handa starfsfólkinu. Þeir fá afnot af landinu okkar og ódýra raforku. Það er því skylda okkar að ná sem mestu út úr þessu og það getum við gert með því að laun starfsmanna í þessum geira séu viðunandi. Þau eru það ekki í dag því grunnlaun hjá starfsmanni í Norðuráli eru einungis 167 þúsund krónur rúmar.“ Vilhjálmur segir þó rétt að þeir fái vaktaálag, ferðapeninga og annað slíkt.
„Þessi laun eru til skammar,“ segir Vilhjálmur. Starfsmenn vilji sömu laun og starfsmenn hjá Alcan í Straumsvík. „Þegar við höfum gert launasamanburð milli fyrirtækjanna, berum saman vinnustundafjölda og fáum einingarverð, kemur í ljós að það munar tugþúsundum milli þessara verksmiðja. Krafan okkar er einfaldlega sú að þessi laun verði leiðrétt til samræmis við starfsbræður þeirra í Alcan við Straumsvík.“
Ekki náðist í Gunnar Guðlaugsson, framkvæmdastjóra Norðuráls. Hann var á fundi.