„Nei, það er ekki óhæfilegt að við krefjum Ísland um endurgreiðslur Icesave-innistæðanna,“ sagði barónessa Cohen af Pimlico við umræður á Evrópuþinginu í Brussel í gær.
Barónessan á sæti í lávarðadeild breska þingsins og er formaður fjármála- og viðskiptanefndar hennar. Hún sagðist gallhörð á því að kröfur Breta á hendur Íslendingum vegna Icesave væru réttlátar.
„En vextirnir sem Íslendingar eru krafðir um eru óeðlilega háir,“ bætti hún við, samkvæmt frásögn norska vefsetursins ABC-nyheter af umræðunum.
Það var sænski Evrópuþingsmaðurinn Olle Schmidt úr sænska þjóðarflokknum sem lagði spurningu fyrir breska og hollenska þingmenn um kröfur á hendur Íslendingum vegna Icesave við umræður um leiðir út úr fjármálakreppunni.
„Mér finnst þær óhæfilegar gagnvart Íslandi,“ sagði Schmidt um kröfur Breta og Hollendinga, án þess þó að minnast á, að sænska ríkisstjórnin er einn harðasti bandamaður kröfuhafanna í stríðinu við Íslendinga.
Þingmanni frá Hollandi fannst kröfurnar ekki óhæfilegar, Svaraði spurningu Schmidt með stuttu nei-i. Barónessan sagði að Bretar hefðu í engu slæma samvisku vegna málsins.
Sjá frétt ABC-nyheter af umræðunum og viðtal fréttamanns við barónessu Cohen af Pimlico.