Dregið úr vægi verðtryggingar

Í undirbúningi er nýtt frumvarp um greiðsluaðlögun, sem meðal annars felur í sér að sett verði á fót ný stofnun, Umboðsmaður skuldara. Frumvarpið verður að norrænni fyrirmynd, og verða fyrstu heildstæðu lög um greiðsluaðlögun.

Þetta kom meðal annars fram þegar ráðherrar í ríkisstjórninni kynntu aðgerðir til að taka á skuldavanda heimila. Sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að ríkisstjórnin tryði því að með þessum aðgerðum sé búið að ná utan um vandann.

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, sagði að með aðgerðunum væri búið að bregðast við þeim vandamálum, sem vitað væri um í þessum málum.

Fyrstu frumvörpin, sem kynnt voru í dag, verða væntanlega lögð fram á Alþingi þegar eftir helgina og að þau verði öll komin fram fyrir 1. apríl.

Fram kom meðal annars á blaðamannafundi ráðherranna, að gert er ráð fyrir að draga úr vægi verðtryggingar. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið vinnur að skýrslu um verðtryggingu og þá kosti og galla sem fylgja afnámi hennar. Verða niðurstöðurnar kynntar á opnum fundi með viðskiptanefnd Alþingis síðar í þessum mánuði.

Þá er von  á ítarlegri úttekt Seðlabankans í haust á fyrirkomulagi peningamála, reynslu af peningastefnunni og fljótandi gengi. Segir forsætisráðuneytið, að Seðlabankinn telji að forsenda þess að unnt verði að draga úr vægi verðtryggingar sé að árangur náist við að ná niður væntingum um verðbólgu og tryggja stöðugleika.

Forsætisráðuneytið segir að samkvæmt greiðsluaðlögunarfrumvarpinu verði greiðsluaðlögun eftirleiðis félagslegt úrræði en ekki „vægara" form gjaldþrots. Fleiri muni hafa rétt á greiðsluaðlögun og verði nú eitt kerfi fyrir allar kröfur. Með þessu sé samningsstaða lántakenda gagnvart sínum lánardrottnum bætt.

Umboðsmaður skuldara mun hafa það hlutverk að gæta hagsmuna skuldara og lækka skuldbyrði eins og kostur er. Hefur hann meðal annars það hlutverk að kalla á fund kröfuhafa og semja við þá um lægri greiðslubyrði. Hann verður fjármagnaður af fjármálafyrirtækjum, sem á virka sem hvati á fyrirtækin til að stunda ábyrga útlánastarfsemi.

Meðal þess sem nú er lagt til er eftirfarandi:

  • úrræði fyrir fólk með tvær eignir
  • enn lægra hámark á dráttarvexti
  • við nauðungarsölur verður markaðsvirði eigna dregið frá kröfu
  • fólki gert kleift að búa í húsnæði í 12 mánuði þrátt fyrir
  • nauðungarsölu/gjaldþrot
  • hámarksfjárhæðir innheimtukostnaðar takmarkaðar enn frekar
  • reglur um niðurfellingu skattkrafna endurskoðaðar
  • hóflegar skuldbreytingar skattfrjálsar
  • stórfelldar niðurfellingar skattlagðar
  • dregið úr vægi verðtryggingar.

Þá segir ríkisstjórnin að lögð verði fram heildstæð húsnæðisstefna til framtíðar á vormánuðum, sem byggi á þremur stoðum: eigna-, búseturéttar- og leiguleið. Verður nýju kaupleigukerfi komið á fót hjá Íbúðalánasjóði vegna eigna sem hann á nú þegar ,  lög um húsnæðissamvinnufélög verða bætt og húsnæðisbætur komi í stað vaxta- og húsaleigubóta.

Árni Páll Árnason og Jóhanna Sigurðardóttir kynna aðgerðirnar í dag.
Árni Páll Árnason og Jóhanna Sigurðardóttir kynna aðgerðirnar í dag. mbl.is/Ómar
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, hefur hlýtt kalli Krabbameinsfélagsins og safnar yfirskeggi.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, hefur hlýtt kalli Krabbameinsfélagsins og safnar yfirskeggi. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert