Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af 2 milljóna króna bótakröfu manns, sem var handtekinn og sætti líkamsleit. Dómurinn taldi að líkamsleitin hefði verið ólögmæt og óþörf eins og á stóð en bótakrafan væri fyrnd.
Maðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð morgun einn í mars árið 2007 eftir að til átaka kom með honum og ökumanni bíls, sem taldi manninn hafa hrækt á bíl sinn.
Leitað var á manninum á lögreglustöðinni, þar á meðal innan klæða og var honum skipað að afklæðast öllu nema bol. Hann var síðan vistaður í fangaklefa en var sleppt síðdegis eftir að tekin var af honum skýrsla. Ekki var gefin út ákæra á hendur honum.
Maðurinn mál og krafðist miskabóta fyrir ólögmæta handtöku lögreglu, líkamsleit og frelsissviptingu. Héraðsdómur taldi að handtakan og vistun mannsins í fangaklefa hefði verið lögmæt og ekki hefði verið sýnt fram á, að þessar aðgerðir hafi verið framkvæmdar með óþarflega særandi eða niðurlægjandi hætti eða að frelsissvipting mannsins hafi staðið lengur en réttlætanlegt var.
Hins vegar hafi engin efni verið til að leita svo ítarlega á manninum sem raun bar vitni og sé ríkið bótaskylt vegna þess. Hins vegar hafi bótakrafan fyrnst þar sem um 2 ár liðu frá atvikinu þar til málið var höfðað.