Harma máttleysi stjórnvalda

Samtök lánþega telja lítið nýtt hafa komið fram í þeim …
Samtök lánþega telja lítið nýtt hafa komið fram í þeim aðgerðum sem stjórnvöld kynntu í dag til bjargar heimilunum. Rax / Ragnar Axelsson

Samtök lánþega harma máttleysi stjórnvalda við að taka á vandanum sem steðjar að íslenskum heimilum og hvetja ríkisstjórnina til að sýna mátt til að fara að þeim lögum sem þegar eru sett í landinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem samtökin sendu frá sér í kvöld

Þar lýst yfir furðu á að stjórnvöld boði til blaðamannafundar í þeim tilgangi að kynna ákvæði sem verið hafa til staðar í íslenskum lögum til fjölda ára. Einnig sé seilst langt með því að segja  framtíðarstefnumótun í peningamálum vera hluta af bráðaaðgerðum til stuðnings heimilum landsins.

„Fátt, ef eitthvað í þeim aðgerðum sem boðaðar voru af 5 ráðherrum ríkisstjórnarinnar vekja von um réttlátar aðgerðir til hagsbóta fyrir íslensk heimili í kjölfar efnahagshrunsins 2008,“ segir í tilkynningunni. Þar sé ekkert umfram þegar skilgreind úrræði um leiðréttingu á höfuðstól íbúðarlána. Ekkert sé þar að finna um aðgerðir til að þvinga fjármálafyrirtæki til að fara að lögum, né heldur um skyldu aðila til að túlka samningsatriði sem lagaleg óvissa ríkir um neytendum í hag líkt og kveðið sé á um í lögum.

„Ekkert er þar að finna um aðgerðir til að stöðva nú þegar innheimtuaðgerðir sem byggja á samningum sem dæmdir hafa verið ólöglegir fyrir íslenskum dómstólum.

 Ekkert er þar að finna um flýtimeðferð á þeim málum sem bíða úrlausnar Hæstaréttar.

Ekkert er þar að finna um hugmyndir einstakra þingmanna um svokallað lyklafrumvarp.

Ekkert er þar að finna um hugmyndir einstakra þingmanna um lækkaðan fyrningartíma gjaldþrots einstaklinga úr 10 árum í 4.

Það sem stendur upp úr er eftirfarandi:
1.     Markaðsvirði eignar skal mynda þann grunn sem skuld lækkar um við nauðungarsölu. Slíkt atriði er þegar að finna í 57. gr. IX kafla laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Ekkert nýtt þar.

2.     Dregið skal úr vægi verðtryggingar. En það skal gert með því að hvetja til frekari vaxtar í óverðtryggðum útlánum. Það hjálpar engum sem þegar er með verðtryggt lán og kemur ekki til álita sem bráðaaðgerð til hjálpar skuldsettum heimilum. Frekar er hér um að ræða ákvæði sem ætlað er að rugla fólk í rýminu gagnvart því að í raun er lítið verið að gera.

Yfirlýsing sú sem ríkisstjórnin sendi frá sér á að mati Samtaka lánþega meira skylt við illa unnið skólaverkefni sem gert var á handahlaupum rétt fyrir skil en að um sé að ræða marktækar aðgerðir sem hafa verið í smíðum undanliðna 18 mánuði.  Vegna þess vilja Samtök lánþega nú koma stjórnvöldum til hjálpar og benda á tvö atriði sem þegar kæmu heimilum landsins til góða og þegar eru lagaheimildir fyrir.


1.     Þegar ber að túlka alla erlenda lánasamninga neytendum í hag vegna þeirrar réttaróvissu sem um þá ríkir. Slíkt er heimilað skv. b. lið 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.

2.     Þegar ber að stöðva aðfarir fjármálafyrirtækja sem fara offari í innheimtu samninga sem þegar hafa verið dæmdir ólöglegir fyrir dómstólum.

Þessar aðgerðir yrðu strax til þess að lækka greiðslubyrði lána sem hvíla á heimilum landsmanna.  Samtök lánþega hvetja stjórnvöld til þess að grípa nú þegar til ofangreindra úrræða, en útskýra ella af hverju ekki er hægt að grípa til þeirra,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert