Fréttaskýring: „Mig langaði bara til að prófa gönguskíði“

Einar Stefánsson við Grímsfjall á einni af fáum góðviðrisstundum ferðarinnar.
Einar Stefánsson við Grímsfjall á einni af fáum góðviðrisstundum ferðarinnar. Ljósmynd/ Einar Stefánsson

Veðrið lék svo sannarlega ekki við Einar Stefánsson á gönguskíðaferð hans yfir Vatnajökul, Hofsjökul og Langjökul síðastliðna 16 daga. Snjókoma, skafrenningur, rigning og næstum stöðugur mótvindur settu mark sitt á ferðalagið og það var ekki laust við að Einar væri sáttur við að sitja í bíl á heimleið er blaðamaður náði tali af honum í gærkvöldi.

„Ég hef verið í hörmulegu veðri næstum hvern dag frá því að ég lagði af stað,“ segir Einar. Aðeins tveir góðir dagar hafi komið allan tímann. „Það var 10-20 metra mótvindur á sekúndu næstum allan tímann, svo þetta voru mikil slagsmál og maður hefur brennt nokkrum kaloríum.“

Einar fékk þá hugdettu í janúar að fara á gönguskíðum austan úr Álftafirði vestur í Hrafnfjörð og skyldi farið yfir þá jökla sem leiðin lægi um. „Mig langaði bara til að prófa gönguskíði. Ég hef sýslað í ýmsu í fjallamennsku í gegnum tíðina, en hef ekkert verið á gönguskíðum,“ segir Einar. Ljóst var þó strax í janúar að snjóleysi gæti heft för, líkt og kom svo á daginn.

Á skíðum yfir mosaþembur

Snjóleysi hefti raunar för hans víðar. „Ég ætlaði að labba upp úr Geithellnadal en þar var svo snjólítið að ég þurfti að hætta við fyrsta daginn. Ég fór því upp á Öxi og lagði af stað þaðan,“ útskýrir hann.

„Á Hveravöllum var nánast enginn snjór heldur. Þar kom það fyrir ég að gekk á skíðunum yfir mosaþembur og grasbala á milli þess sem ég þræddi skaflarendur.“ Í tvígang þurfti hann síðan að bera birgðirnar sem annars voru dregnar á gönguskíðasleða, en Einar lagði af stað með um 50 kg af farangri. Sleðinn var þó gerður léttari í Nýjadal um síðustu helgi er hann hitti félaga sína sem fylgdust vel með ferðalaginu.

„Við héldum hangikjötsveislu þar og það var ósköp gott.“ Hann hafi þó ekki gert mikið af því að borða þurrmat í ferðinni. „Ég var með mikið af harðfiski og hangikjötsstykki er ég lagði af stað og eldaði ekki þurrmat nema ég þyrfti. Síðan fékk ég matarleifarnar úr Nýjadal og þær entust mér til leiðarloka.“

Einar var í daglegu sambandi við félaga sína, fyrir utan tvo sólarhringa á Vatnajökli þegar ekkert samband náðist. „Það var óþægilegt.“ Á leiðinni hitti hann heldur engan nema félagana, þó honum sé að sögn kunnugt um að fleiri hafi farið yfir jöklana á gönguskíðum nýlega. Einveran hafi heldur ekki verið slæm. „Í einverunni finnur maður sjálfan sig,“ segir Einar og kveðst alls ekki hafa fengið nóg af gönguskíðunum. „Nú þarf maður bara að kaupa gönguskíði handa konunni og draga hana með.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert