Rektorar íslenskra háskóla lýsa yfir þungum áhyggjum af fyrirætlunum stjórnvalda um niðurskurð á fjárveitingum til háskólanáms. Á þessu ári og því síðasta hafa íslenskir háskólar tekið á sig skerðingu sem nemur 8,5 – 15% af heildarfjárveitingum og samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneyti er gert ráð fyrir 25 – 30% niðurskurði til viðbótar á næstu tveimur til þremur árum. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu sem þeir hafa sent frá sér.
Fjárframlag miklu lægra hér
Rektorar telja augljóst að stórlega skert fjárframlög geri að engu uppbyggingu síðustu ára og veiki háskólakerfið einmitt nú þegar brýnt er að beita því til viðreisnar og endurbyggingar.
„Opinber framlög til háskólastigsins sem hlutfall af landsframleiðslu eru samkvæmt upplýsingum OECD (Education at a Glance 2009) mikið lægri hér á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum, eða sem nemur 35 – 65%.
Til þess að ná sambærilegum framlögum við það sem þar gerist þyrfti að hækka þau hér um sem nemur um 7 – 13 milljörðum á ári. Þetta sýnir að íslenskir háskólar hafa fram að þessu boðið fram menntun á fjölbreyttum sviðum fyrir umtalsvert minna fé en háskólarnir á hinum Norðurlöndunum," segir í ályktun þeirra.
Sameiginlegt markmið að tryggja gæði menntunar
Einföldun háskólakerfisins með stórauknu samstarfi og meiri verkaskiptinu, sem jafnvel getur leitt til sameiningar stofnana, er úrræði sem margir telja að geti skilað mestum sparnaði. Rektorar háskólanna taka virkan þátt í vinnu um þessi mál, enda sameiginlegt markmið þeirra að tryggja gæði háskólamenntunar á Íslandi. Þeir leggja áherslu á að raunverulegir kostir verði settir fram og fengin samstaða innan háskólasamfélagsins um á hvaða forsendum verði byggt við mat á kostunum. Ávinningur af nýrri skipan háskóla er hins vegar langt frá því að vera í hendi og því beinlínis misleiðandi að reikna hann til tekna fyrir skólana nú þegar niðurskurðarhnífnum er beitt, segir í ályktun sem þeir hafa sent frá sér.
„Háskólarnir gegna lykilhlutverki í uppbyggingu og framþróunar á öllum sviðum atvinnulífs og menningar. Með því að virkja þá miklu þekkingu og kunnáttu sem býr innan háskólanna má skapa ný verðmæti, efla gagnrýna hugsun og auka víðsýni. Þetta er ennþá augljósara þegar ríkir kreppuástand eins og hér, og benda rektorar á þá uppbyggingu háskólamenntunar og rannsókna sem varð burðarás í endurreisn Finnlands eftir kreppuna þar í byrjun síðasta áratugar.
Rektorar skora á íslensku þjóðina að nýta sér kraft háskólanna til endurreisnar samfélagsins, snúa vörn í sókn, og horfa á vandamálin sem tækifæri til frumlegra lausna. Þjóðin verður að horfa fram úr vandanum, virkja mannauðinn, hvetja til sköpunar, og sækja fram samhent og einbeitt til bjartari tíma. Háskólarnir verða í fararbroddi þeirrar sóknar," segir ennfremur í ályktuninni sem eftirtaldir rektorar rita undir.
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík
Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst
Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands
Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands
Skúli Skúlason, rektor Háskólans á Hólum
Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri