Sjö manns á tvítugs- og þrítugsaldri hafa verið handtekin vegna gruns um að hafa tekið þátt í tugum innbrota á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi. Brotin voru framin á síðastliðnum mánuði og var unnið að því að upplýsa þau í samstarfsverkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi, að sögn Heimis Ríkharðssonar lögreglufulltrúa.
Fólkið braust inn í fjóra söluturna. Einn í Hafnarfirði, einn í Kópavogi og tvo í Grafarvogi í Reykjavík. Einnig brutust það inn í 10-12 sumarbústaði á Suðurlandi og á þriðja tug bifreiða.
Heimir segir heildar verðmæti þýfisins ekki komi á hreint en ljóst þyki að um mikil verðmæti var að ræða. Fólkið stal að minnsta kosti átta flatskjám, ýmsum tækjum, tóbaki og peningum. Úr bílunum stálu þau meðal annars fartölvum og myndavélum. Búið er að hafa uppi á hluta þýfisins og er áfram unnið að því að endurheimta það.
Fólkið, sem hefur áður komið við sögu lögreglu, er nú í gæsluvarðhaldi.